Samdráttur í rækjuveiðum og viðbrögð stjórnvalda

Þriðjudaginn 16. febrúar 1999, kl. 13:55:04 (3645)

1999-02-16 13:55:04# 123. lþ. 66.91 fundur 264#B samdráttur í rækjuveiðum og viðbrögð stjórnvalda# (umræður utan dagskrár), StB
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 123. lþ.

[13:55]

Sturla Böðvarsson:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. 1. þm. Vestf. fyrir að taka þetta mál hér upp, svo alvarlegt sem það er þegar brestur verður á rækjuveiðum. En það eru auðvitað margar hliðar á málinu og e.t.v. ekki mjög auðvelt að finna lausn sem aðgengileg er. Þróunin hefur verið sú á undanförnum árum að sérhæfing hefur verið að aukast og það hefur verið þannig að í mörgum byggðarlögum hafa fyrirtæki hallað sér að rækjuvinnslu í vaxandi mæli og látið öðrum eftir þorskvinnsluna og þar kemur þessi vandi rækjuveiða og vinnslu mjög harkalega niður. Það er alveg fyrirsjáanlegt að það verður að segja upp fjöldanum af fólki sem skapar auðvitað mikil vandkvæði.

Ég vil við þessa umræðu leggja áherslu á það að hæstv. sjútvrh. skoði þetta mál og meti stöðuna mjög fljótlega, þ.e. hvað hægt sé að gera til þess að koma til móts við þau byggðarlög sem verða verst úti í þessari stöðu. Það er alveg ljóst að það verður að leita leiða til þess að koma einhvern veginn til móts við þessi byggðarlög og þau fyrirtæki sem lenda í vanda vegna samdráttar í rækjuveiðum og vinnslu.

Þær heimildir sem 1. þm. Vestf. og málshefjandi nefndi þarf að skoða, annað er óhjákvæmilegt. Til þess eru heimildir í lögum að nýta þær þegar nauðsyn krefst. Mér sýnist að það sé alveg augljóst að til þess þurfi að grípa.