Bætt réttarstaða barna

Þriðjudaginn 16. febrúar 1999, kl. 14:58:31 (3672)

1999-02-16 14:58:31# 123. lþ. 66.38 fundur 266. mál: #A bætt réttarstaða barna# þál., Flm. RG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 123. lþ.

[14:58]

Flm. (Rannveig Guðmundsdóttir):

Herra forseti. Fyrst út af orðum forseta. Það hefur verið gott samráð við þingflokkana um röðun þingmála þessa tvo daga en það er umhugsunarefni varðandi störf þingsins að hér skulum við vera að hefja 38. mál á dagskrá fundarins og fyrirhugað að þau verði orðin 73 áður en yfir lýkur í dag. Það er umhugsunarefni og ég vona að við komumst út úr því, herra forseti, að þannig sé staðið að málum.

Ég vík þá að málinu mínu sem er bætt réttarstaða barna samkvæmt barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Herra forseti. Stuðningur við barnafjölskyldur á Íslandi er minni en almennt gerist í nálægum löndum sem við miðum okkur oft við. Margir telja að fjölskyldan hafi setið á hakanum í íslensku samfélagi og það sé alls ekki nægilega barnvænt. Því er þessi tillaga flutt og að skipuð verði nefnd til að gera úttekt á lögum sem varða réttarstöðu barna með það að markmiði að uppfylla skilyrði barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem staðfestur hefur verið af hálfu Íslands, að gerð verði úttekt á framkvæmd laga sem snúa að börnum í sama tilgangi og að metið verði hvort rétt sé að lögleiða sáttmálann í heild sinni eins og gert var með mannréttindasáttmála Evrópu.

Við höfum reyndar staðið okkur vel á mörgum sviðum en það má ekki láta staðar numið. Fljótlega eftir undirritun samningsins af hálfu Íslands var hafist handa við að laga íslenskan rétt að ákvæðum barnasáttmálans og voru gerðar ýmsar réttarbætur í því sambandi, m.a. á þeim kafla stjórnarskrárinnar þar sem lögfest voru ákvæði þar sem segir að börnum skuli í lögum tryggð vernd og umönnun.

[15:00]

Með lögum nr. 58/1992, um vernd barna og ungmenna, fluttist yfirstjórn barnaverndarmála úr höndum menntmrn. til félmrn. Það finnst mér að hafi verið farsælt. Starfsháttum barnaverndarráðs var breytt og lögfestar voru reglur um starfshætti og málsmeðferð barnaverndarnefnda.

Flutningsmenn þessarar tillögu telja að enn þá skorti á að íslenskur réttur fylli ákvæði barnasáttmálans og að langt sé í land með að lagaframkvæmd sé í samræmi við anda sáttmálans, þ.e. að börn og ungmenni innan 18 ára aldurs njóti þeirrar verndar sem sáttmálanum er ætlað að veita en öðlist smám saman stöðu fullorðinna með tilheyrandi ábyrgð og skyldum. Það skortir á vernd þjóðfélagsins og síðustu fréttir sem okkur berast eru neyðarkall frá barna- og unglingageðdeildinni og við höfum ekki hugað nægilega að því að hækkun sjálfræðisaldurs kallar á aðgerðir og fjármagn. Við eigum að vernda þennan hóp með sértækum úrræðum.

Nefndin sem lagt er til að verði skipuð skal m.a. skoða eftirtalin lög og framkvæmd þeirra þar sem vafi leikur á að réttindi barns séu tryggð í samræmi við ákvæði barnasáttmálans:

Í 34. gr. barnalaga frá 1992 er kveðið á um heimild til að skipa barni talsmann til að gæta hagsmuna þess við úrlausn forsjármáls ef sérstök þörf er á því. Vorið 1998 hafði heimildinni aldrei verið beitt, hvorki hjá héraðsdómstólum né dómsmrn. þrátt fyrir mörg erfið mál af þessu tagi.

Það var mikil réttarbót þegar gert ráð fyrir skipun talsmanns í barnalögunum frá 1992 við úrlausn forsjármála. En þessari heimild hafði aldrei verið beitt þegar ég spurði um það á þingi í árslok 1998.

Þá er og gert ráð fyrir skipun talsmanns í erfiðum barnaverndarmálum en samkvæmt svari við fyrirspurn minni á sama hausti er heimildinni sjaldan beitt. Í þingflokki jafnaðarmanna höfum við beitt okkur fyrir bættri réttarstöðu barna til umgengni við báða foreldra sína. Ásta R. Jóhannesdóttir og Össur Skarphéðinsson hafa flutt þáltill. um breytingu á barnalögum til að tryggja þennan rétt.

Það þarf að skoða lög um íslenskan ríkisborgararétt. Barn sem fæðist utan hjónabands á Íslandi og á móður sem er erlendur þegn en íslenskan föður, öðlast ekki íslenskt ríkisfang, en barn sem eins er ástatt með fær íslenskt ríkisfang ef móðirin er íslenskur ríkisborgari en faðirinn erlendur þegn. Staðan gæti hæglega orðið sú að barn sem fæðist á Íslandi, á íslenskan föður og móður sem er erlendur þegn, og það yrði ríkisfangslaust ef móðirin er þegn ríkis sem byggir ríkisfangsrétt á staðarreglunni. Þetta er mjög alvarlegt og í 7. gr. barnasáttmálans er ákvæði um að barn eigi rétt til að öðlast ríkisfang frá fæðingu.

Samkvæmt almennum hegningarlögum er heimilt að svipta 15 ára ungmenni frelsi með fangelsun eða varðhaldi. Í íslenskum lögum er hins vegar ekkert ákvæði sem verndar börn gegn því að verða vistuð með síbrotamönnum sem gætu haft afar óheppileg áhrif á þroska svo ungra fanga.

Í nýju Barnahúsi sem opnað var í október 1998 er að finna móttöku fyrir börn sem eru þolendur kynferðislegs ofbeldis. Þar fer fram læknisskoðun, ráðgjöf og stuðningur við börnin. Það er mjög nauðsynlegt, herra forseti, að byggja ofan á þessa nýju gjörð.

Það er líka veittur réttur til barna með barnasáttmálanum til að láta í ljós skoðun sína um öll mál, og Svanfríður Jónasdóttir í þingflokki jafnaðarmanna hefur flutt mál sem varðar þann rétt og grunnskólann.

Herra forseti. Greinargerðin með þessari tillögu er afar ítarleg og víðtæk og ég hefði kosið að eiga þess kost að fylgja þessu máli vel úr hlaði. En ég mun virða ósk forseta og þann samning sem hefur verið gerður í dag til þess að þingmannamál komist á dagskrá. En ég vil þó í lokin nefna það, herra forseti, að við þurfum að skoða aðbúnað barna nýbúa, hver á réttur þeirra að vera varðandi tungumál og menningararf. Við verðum að tryggja börnum flóttamanna, sem óska eftir pólitísku hæli, vernd og mannúðlega aðstoð.

Síðan, herra forseti, hvet ég þingmenn til að skoða töflu og fylgiskjal með þessari tillögu vegna þess að þar kemur mjög vel í ljós hversu litlu við verjum til barna samkvæmt jafnvirðisgildum þegar við berum okkur saman við Norðurlönd.

Herra forseti. Þó ég hefði kosið að fylgja þessu máli ítarlega úr hlaði þá læt ég hér staðar numið.