Bætt réttarstaða barna

Þriðjudaginn 16. febrúar 1999, kl. 15:10:25 (3675)

1999-02-16 15:10:25# 123. lþ. 66.38 fundur 266. mál: #A bætt réttarstaða barna# þál., MagnM
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 123. lþ.

[15:10]

Magnús Árni Magnússon:

Hæstv. forseti. Mig langaði til að leggja það til umræðunnar hér, sem er mjög góð og mér líst mjög vel á þá þáltill. sem er komin fram, að það er einn vandinn sem við búum við hér á landi að allt of snemma er farið að líta á börnin sem fullorðin. Hér hefur verið lengra sumarfrí en víðast hvar annars staðar og börn eru látin vinna sumarvinnu, oft og tíðum nánast sem fullorðin væru. Einnig má rekja mikla unglingadrykkju sem er hér á landi til þess að börn eru mjög snemma vígð inn í fullorðinssamfélag hér og hefur það ekki bara kosti í för með sér heldur ýmsa galla, þar á meðal þann sem ég nefndi.

Þetta kemur einnig inn á þá umræðu sem var hér í gær um agaleysi í íslensku samfélagi og þegar börn fá ekki að vera börn á meðan þau eru það og enn þá myndast gífurleg togstreita sem skilar sér í því agaleysi sem rætt hefur verið um. Þess vegna vil ég fagna því að þessi tillaga kemur fram hér og ég vona að henni verði fylgt rækilega eftir.