Gjaldþrotaskipti

Þriðjudaginn 16. febrúar 1999, kl. 15:31:28 (3680)

1999-02-16 15:31:28# 123. lþ. 66.39 fundur 96. mál: #A gjaldþrotaskipti# (greiðsluaðlögun) frv., ÓÖH
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 123. lþ.

[15:31]

Ólafur Örn Haraldsson:

Virðulegi forseti. Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir nýtti knappan ræðutíma sinn til árása á Framsfl. sérstaklega, áður en hv. þm. fjallaði um efni þáltill. þeirrar sem hér er til umræðu. Mér þykir þetta afar óviðeigandi þegar þingmenn hafa verið beðnir um að takmarka ræðutíma sinn sem frekast má verða og þingforseti hefur sérstaklega hrósað hv. þm. fyrir að ljúka sex ræðum á fimmtán mínútum.

Ég ætla ekki að ræða hin efnislegu atriði þáltill. en hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir hóf umræðu um efnismikið pólitískt mál, ásakanir á hendur Framsfl., sem nánast krefjast þess að dregnar verði fram ítarlegar staðreyndir um hið gagnstæða. Ég tel að hér hafi þingmaðurinn gengið of langt í þeim knappa ræðutíma sem hér gefst.

Ég vil mótmæla þessum vinnubrögðum. Ég vil mótmæla þeim árásum og pólitísku aðdróttunum sem þm. hv. lét falla í garð Framsfl.