Gjaldþrotaskipti

Þriðjudaginn 16. febrúar 1999, kl. 15:33:07 (3681)

1999-02-16 15:33:07# 123. lþ. 66.39 fundur 96. mál: #A gjaldþrotaskipti# (greiðsluaðlögun) frv., Flm. JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 123. lþ.

[15:33]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar):

Herra forseti. Sannleikanum verður hver sárreiðastur. Ég veit ekki til þess, herra forseti, í þessu samkomulagi um knappan ræðutíma, að ekki mætti skamma Framsfl. ef það reyndist nauðsynlegt. Herra forseti upplýsir mig þá ef svo hefur verið. Ég tel mig hafa notað mjög stuttan tíma til þess að fara yfir stórt og viðamikið mál og fara yfir staðreyndir málsins. Það hefur áður verið gert hér í þessum ræðustól og ég veit að hv. framsóknarmenn eiga erfitt með að mótmæla því. Það sem ég og hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir sögðum eru bara staðreyndir málsins.

Við erum bara að segja það sem satt og rétt er í þessu máli, herra forseti. Framsóknarmenn hafa ekki staðið við það sem þeir lofuðu kjósendum á síðasta kjörtímabili, þ.e. í kosningabaráttunni. Þeir lofuðu fólki því sem ég mæli hér fyrir, þ.e. greiðsluaðlögun.

Hv. þm. Guðni Ágústsson, sem nú er í stól forseta, sagði jafnvel að lífið lægi við að það frv. yrði að lögum fyrir fjórum árum síðan, á síðasta þingi, vegna þess að skuldir heimilanna væru það erfiðar. Þess vegna héldum við auðvitað að þetta yrði fyrsta málið sem hv. framsóknarmenn mundu koma í gegnum þingið.

En svo var ekki. Þeir komu í gegn tveimur öðrum málum sem ég og hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttur höfum gert grein fyrir. Þau hafa engu skilað fyrir skuldug heimili í landinu. Þetta eru bara staðreyndir málsins og ég tel mig ekki hafa misnotað knappan ræðutíma minn þó ég héldi því til haga, herra forseti.

Mér finnst skiljanlegt, herra forseti, að hv. þm. Ólafi Erni Haraldssyni, sem ég veit að vill þessu fólki vel, líði illa vegna svika framsóknarmanna og að það komi fram hjá honum hér í ræðustól. En að því get ég bara ekki gert, herra forseti.