Endurskoðun viðskiptabanns á Írak

Þriðjudaginn 16. febrúar 1999, kl. 15:54:23 (3684)

1999-02-16 15:54:23# 123. lþ. 66.41 fundur 83. mál: #A endurskoðun viðskiptabanns á Írak# þál., PHB
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 123. lþ.

[15:54]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Hér er hreyft ákaflega mikilvægu og mjög dramatísku máli og ég vil byrja á að þakka flutningsmönnum fyrir að vekja umræðu um þetta mál. Ég get tekið undir flest það sem hv. þm. Magnús Árni Magnússon sagði áðan um vanda slíkra viðskiptabanna og gildi þeirra. Í Írak er skelfilegt ástand og það er ákaflega billegt að kenna viðskiptabanninu um, á sama tíma og leiðtogar landsins eru að reisa hallir og standa í alls konar fjárfestingum sem maður kynni að halda að ættu að koma þjóð þeirra til góða en gera það ekki.

Við stöndum því frammi fyrir miklum siðfræðilegum vanda og samtök þjóðanna hafa ákveðið að beita þessu vopni, sem er viðskiptabann á Írak, til að ná fram ákveðnum markmiðum til að minnka ógn við nágranna þeirra en svo virðist ekki sem viðskiptabannið nái tilgangi sínum, og það er ekkert sem segir mér að staða almennings í landinu mundi batna við að viðskiptabannið yrði afnumið. Það hefur reyndar verið linað ansi mikið.

Ég vil benda á að í Norður-Kóreu er líka mjög slæmt ástand almennings, virkilega slæmt ástand. Þar er líka ógnarstjórn og þar er ekki viðskiptabann. Það er því ekkert sem segir mér það að afnám viðskiptabannsins muni bæta stöðu barna og annarra sem eru að farast í Írak, sem er virkilega erfitt að horfast í augu við.

Herra forseti. Ég vil endurtaka þakkir mínar til flutningsmanna fyrir að vekja okkur til umhugsunar um þetta ástand og ég vænti þess að þessi umræða muni valda því að fulltrúar okkar á erlendum vettvangi, sem koma að þessu máli, muni hreyfa því hvort viðskiptabannið sé hugsanlega úrelt, hvort það nái tilgangi sínum, hvort hægt sé að grípa til einhverra annarra ráða og hvort viðskiptabannið sé orsökin að þessum hörmungum eða hvort það er eitthvað annað.