Endurskoðun viðskiptabanns á Írak

Þriðjudaginn 16. febrúar 1999, kl. 15:56:49 (3685)

1999-02-16 15:56:49# 123. lþ. 66.41 fundur 83. mál: #A endurskoðun viðskiptabanns á Írak# þál., Flm. SJS
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 123. lþ.

[15:56]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þær umræður sem hér hafa orðið og hefði gjarnan viljað hafa svolítið rýmri tíma til að bregðast við þeim en það eru þó aðeins örfá atriði. Í mínum huga snýst þetta mál ekki lengur um það hver beri ábyrgð eða hverjum sé um að kenna. Þegar milljónir eru að deyja, þegar börn eru að svelta í hel svo þúsundum skiptir í hverjum mánuði er málið orðið annars eðlis en svo að það í raun skipti máli hverjum er um að kenna, að finna sökudólg eða hver ber ábyrgðina. Þessi börn eru að deyja samt og spurningin er hvort við getum við forsvarað og réttlætt slíkt ástand áfram. Ég hélt það væri ekki umdeilt í sjálfu sér í alþjóðasamfélaginu að þá yrðu menn að ýta öðru til hliðar og reyna að grípa þar inn í með neyðarhjálp og einhverjum aðgerðum og það er enginn vafi á því, það liggur fyrir í gögnum allra hjálparstofnana og sérfræðinga um þessi málefni og yfirmanna Sameinuðu þjóðanna í landinu sjálfu, að ástandið er afleiðing af vöru- og lyfjaskorti og því að landið er vatnslaust og orkulaust o.s.frv. Þarna ríkir ástand mjög sambærilegt við það sem getur gerst á landsvæðum sem orðið hafa fyrir náttúruhamförum, þar sem allt hrynur, og ef náttúruhamfarir verða í Kólumbíu eða Kóreu eða hvar sem það er, þá erum við yfirleitt ekki að spyrja um hvort þjóðhöfðinginn sé gulur eða svartur eða vondur eða góður, heldur er bara reynt að fara inn og bjarga mannslífunum og um það snýst þetta.

Í öðru lagi er það þannig, sem ég bið hv. þm. að hugsa og 15. þm. Reykv. þar með talinn, að viðskiptabannið er alls ekki að skila þeim pólitíska árangri sem því var ætlað að gera. Það er búið að reyna á það í átta ár og Saddam Hussein er enn jafnfastur í sessi og hann hefur verið.

Í þriðja lagi er ástandið skýlaust brot, að mínu mati, á öllum viðurkenndum og almennum mannréttindasjónarmiðum. Ég held því menn verði að líta á þetta ástand með þeim augum sem það kallar á, og stór hætta er á því að mínu mati að í raun og veru gæti orðið stjórnarbylting í Írak sem mundi leiða til meiri harðstjórnar og meira haturs á stjórnvöldum Vesturlanda en sem þó er í dag og þykir mönnum nóg um, og ég held menn ættu að kynna sér t.d. álit Denis Hallidays á því hvernig unga kynslóðin í Írak, sem þekkir ekkert annað en viðskiptabann og er alin upp við hatur á Vesturlöndum, er farin að gagnrýna núverandi stjórnvöld í Írak. Fyrir hvað? Fyrir linkind í garð Vesturlanda.