Stjórnarskipunarlög

Þriðjudaginn 16. febrúar 1999, kl. 16:00:09 (3686)

1999-02-16 16:00:09# 123. lþ. 66.42 fundur 174. mál: #A stjórnarskipunarlög# (nytjastofnar í hafi) frv., Flm. GGuðbj (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 123. lþ.

[16:00]

Flm. (Guðný Guðbjörnsdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til stjórnarskipunarlaga um breytingu á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, með síðari breytingum. Flutningsmenn auk mín eru hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir, Kristín Halldórsdóttir, Margrét Frímannsdóttir og Sighvatur Björgvinsson.

Þetta frv. hefur tvisvar áður verið flutt og þar sem er um breytingu á stjórnarskrá er að ræða er ljóst að ekki voru forsendur til þess að samþykkja það fyrr en nú á síðasta þingi kjörtímabilsins. Frv. er tvær greinar og fyrri greinin hljóðar svo:

,,Á eftir 72. gr. laganna kemur ný grein og breytist röð annarra greina til samræmis við það. Greinin hljóðar svo:

Nytjastofnar á hafsvæði því sem fullveldisréttur Íslands nær til eru sameign íslensku þjóðarinnar. Kveðið skal á um sjálfbæra nýtingu þessara auðlinda til hagsbóta fyrir þjóðarheildina í lögum og stjórnvaldsfyrirmælum.``

2. gr. er svohljóðandi: ,,Lög þessi öðlast þegar gildi.``

Hér er sem sagt lagt til að sameignarákvæði 1. gr. fiskveiðistjórnarlaganna verði fest í stjórnarskrá.

Síðan ég flutti frv. fyrst fyrir þremur árum hefur mikil umræða verið í þjóðfélaginu um það hvort nytjastofnanirnir séu ekki þjóðareign eins og gildandi lög gera ráð fyrir. Þverpólitísk almannasamtök hafa verið mynduð um að fiskveiðiauðlindin verði sameign þjóðarinnar og einn ef ekki tveir stjórnmálaflokkar hafa verið stofnaðir, fyrst og fremst til að tryggja þetta ákvæði sem allra best.

Ein leið til þess að tryggja þetta ákvæði, treysta það og festa betur í sessi, er að festa það inn í stjórnarskrá eins og hér er lagt til. Þar með er ekki mögulegt að fella ákvæðið úr lögum eins og nú væri hægt á einu þingi.

Það þarf hvorki að segja þingmönnum né þjóðinni neitt um að nytjastofnar á Íslandsmiðum eru langmikilvægasta auðlind íslensku þjóðarinnar. Þó auðlindirnar séu fleiri þá eru þeir sú langmikilvægasta.

Með þessu frv. er lagt til að stjórnskipuleg staða þessa ákvæðis fiskveiðistjórnarlaganna verði tryggð. Með ákvæði 1. málsl. greinarinnar er tryggt, annars vegar forræði Íslendinga yfir auðlindinni og hins vegar að auðlindin sé sameign íslensku þjóðarinnar en ekki þeirra sem fara með nýtingarréttinn samkvæmt lögum hverju sinni. Ástæða þykir til að tryggja stjórnskipulega stöðu þessa ákvæðis þó að það sé þegar lögbundið vegna þess hvernig núverandi fiskveiðistjórn er framkvæmd.

Síðara ákvæði greinarinnar kveður annars vegar á um að nýta beri auðlindina á sjálfbæran hátt, en með því er átt við að nýtingin mæti þörfum núverandi kynslóðar án þess að skerða möguleika kynslóða framtíðarinnar til sambærilegrar nýtingar. Í því sambandi skal minnt á hið mikla brottkast sem getur ógnað sjálfbærri nýtingu auðlindarinnar. Hins vegar er yfirlýsing um að hagnýting auðlindanna eigi að vera til hagsbóta fyrir þjóðarheildina og ákveðin samkvæmt lögum og stjórnvaldsfyrirmælum. Ástæða þykir til að ítreka hagsmuni þjóðarheildarinnar í ljósi þess að heilu byggðarlögin geta misst lífsviðurværi sitt við kaup og sölu einstaklinga á aflahlutdeildum. Það getur einnig átt sér stað þegar aflahlutdeildum er úthlutað án endurgjalds til einstaklinga og fyrirtækja sem nýta ekki veiðirétt sinn en hagnast á því að selja hann eða leigja til þeirra sem stunda fiskveiðar, þeirra sem ekki fá veiðileyfi eða aflahlutdeild þrátt fyrir ákvæði 69. gr. stjórnarskrárinnar um að ekki megi leggja bönd á atvinnufrelsi manna nema almannaheill krefji.

Eins og ég sagði áðan lagði ég þetta frv. fram fyrir tveimur eða þremur árum. Þetta er í þriðja skiptið sem ég flyt það. Nær samhljóða frv. var flutt á 118. löggjafarþingi 1994--1995 og þá sem stjfrv. Sjálfstfl. og Alþfl. Samkvæmt stefnuyfirlýsingu núv. ríkisstjórnar er stefnt að því að festa í stjórnarskrá ákvæði um að auðlindir sjávar séu sameign íslensku þjóðarinnar. Því mætti ætla að um þetta frv. ríkti víðtæk sátt í þinginu. Þess vegna hefði verið við hæfi að spyrja ráðherra ríkisstjórnarinnar hvort ekki sé vilji fyrir því að samþykkja það en því miður er enginn þeirra staddur í þingsalnum. Það sýnir þá virðingu (Gripið fram í: Og áhuga.) og áhuga sem þeir hafa á þessu málefni og öðrum þeim sem rædd eru í dag.

Maður veltir fyrir sér spurningunni: Hefur eitthvað sérstakt gerst í þessum málum síðan 1994--1995 þegar ríkisstjórnin flutti svona frv., sem mælir gegn því að þetta frv. verði samþykkt núna? Jú, ýmislegt hefur gerst auk þeirrar gífurlegu óánægju með núverandi fiskveiðistjórnarkerfi sem kristallast hefur í þjóðfélaginu. Óánægjan endurspeglast nú síðast í því að skip eru farin að veiða þó þau hafi ekki kvóta til þess að knýja fram dómsmál. Tvennt vil ég nefna sem hefur breyst.

Í fyrsta lagi vil ég nefna nýfallinn dóm Hæstaréttar. Þar er talið ljóst að núverandi fiskveiðistjórnarlög stríði gegn stjórnarskrárákvæðum um jafnræði og atvinnufrelsi. Lagaákvæðið um sameign þjóðarinnar á fiskimiðunum er notað í röksemdafærslu dómstólsins. Því er ljóst að þetta ákvæði í lögunum er mjög mikilvægt.

Í öðru lagi vil ég nefna skrif fræðimanna sem ég fór ítarlega yfir í ræðu minni um þetta mál á síðasta þingi. Ég hef því miður ekki tök á því nú en þar vil ég fyrst og fremst nefna skrif Þorgeirs Örlygssonar prófessors, m.a. í grein hans ,,Hver á kvótann?``, og einnig grein sem birtist í Úlfljóti, eftir Skúla Magnússon lögfræðing. Þeir hafa báðir lagt mikla áherslu á að þessi grein sé mjög mikilvæg. T.d. segir Skúli Magnússon, með leyfi forseta:

,,Þykir óhætt að fullyrða að aflaheimildir nytu verndar 72. gr. stjórnarskrár ef ekki kæmi til áskilnaður löggjafans í aðra átt.``

Túlkun hans er sú að sameignarákvæðið í 1. gr. skipti mjög miklu máli. Það ákvæði er lykilgrein sem kemur í veg fyrir að hægt verði að líta á fiskstofnana sem einkaeign.

Prófessor Þorgeir Örlygsson fær álíka niðurstöðu. Hann fór þó inn á svipaða röksemdafærslu og heyrst hefur frá Sigurði Líndal prófessor en ég ætla aðeins að fá að vitna, herra forseti, í Þorgeir Örlygsson sem segir m.a. í grein sinni ,,Hver á kvótann?``:

,,Fiskstofnar á Íslandsmiðum og hafsvæðin umhverfis landið eru verðmæti, sem ekki geta verið undirorpin einstaklingseignarrétti nokkurs manns. Þá verður heldur ekki talið að íslenska þjóðin eða þjóðarheildin geti verið eigandi í lögfræðilegri merkingu þess hugtaks, hvorki þessara réttinda né annarra, því þjóðin sem slík hefur engar þær heimildir, sem almennt felast í eignarrétti.``

Þarna er komið inn á það að þó að fiskstofnarnir séu ekki einkaeign þá geti þeir heldur ekki verið þjóðareign, eins og Sigurður Líndal hefur haldið fram. Í öðru lagi segir prófessor Þorgeir Örlygsson og það vil ég undirstrika hér, einkum síðarnefnda atriðið.

,,Sú yfirlýsing í 1. gr. fiskveiðistjórnarlaganna, að nytjastofnar á Íslandsmiðum séu sameign íslensku þjóðarinnar er villandi að því leyti að hún gefur til kynna að með ákvæðinu sé verið að tryggja þjóðinni eignarrétt af einhverju tagi. Hins vegar felst í þessu orðalagi ákveðin markmiðsyfirlýsing, það er að nýta beri fiskstofnana við landið til hagsbóta fyrir þjóðarheildina, auk þess sem segja má, að í yfirlýsingunni felist nokkur árétting hinnar fornu reglu um rétt manna til veiða í hafalmenningum innan þeirra marka, sem lög segja til um hverju sinni.``

Ég vil einmitt leggja áherslu á þetta. Ég vil ekki ganga svo langt að lögfesta það að ríkið eigi nýtingarréttinn, þó að það sé auðvitað möguleiki, heldur tel ég að festa beri þennan grundvallarskilning og markmiðsyfirlýsingu í stjórnarskrá.

Virðulegi forseti. Það er fróðlegt að lesa Alþingistíðindi frá þeim tíma er fiskveiðistjórnarlögin voru sett eða þegar kvótakerfið komst á árið 1983. Þá var ekki deilt um eignarhald á fiskimiðunum frekar en margt annað sem síðan átti eftir að verða uppspretta harðvítugra deilna milli manna eftir tilkomu fiskveiðistjórnarlaganna. Þó bar þessi mál á góma. Þá var m.a. lagt til að fiskimiðin yrðu sameign þjóðarinnar. T.d. sagði þá hæstv. sjútvrh., svo ég vitni í Alþingistíðindi frá þessum tíma, með leyfi forseta:

,,Auðvitað á íslenska þjóðin öll fiskimið. Ég tek undir það að um það hefur aldrei verið pólitískur ágreiningur. Hins vegar er óþarfi að mínu mati að setja slíkt ákvæði inn í þessi lög. Það er nú svo að ekki verður allt ákveðið í lögum sem betur fer.``

Það var sem sagt ekki talið nauðsynlegt árið 1983 þó að fram kæmi tillaga um það frá alþýðubandalagsmönnum að festa þetta ákvæði í lög. Sem betur fer var það þó sett inn í lög 1988 og aftur styrkt 1990. Ég er sannfærð um að þetta reyndist síðan mjög mikilvægt ákvæði í áðurnefndum tímamótadómi Hæstaréttar.

Herra forseti. Þó að þetta ákvæði standi sterkt í fiskveiðistjórnarlögunum þá tel ég og vil ítreka að festa beri það í stjórnarskrá svo aldrei komi til þess að þessu ákvæði verði kippt í burtu með einni einfaldri lagabreytingu.

Að lokum vil ég, herra forseti, minna á að í janúarmánuði brást ríkisstjórnin við kvótadómi Hæstaréttar. Við sem sátum í sjútvn. þingsins fengum þá m.a. að glugga í nefndarálit frá bandarískri nefnd sem rannsóknarráð Bandaríkjanna skipaði. Af því var ljóst að mögulegt væri að hafa kvótakerfi, byggðakvóta og blandað stjórnkerfi fiskveiða þannig að jafnræðisreglan og ákvæðið um sameign þjóðarinnar á auðlindum hafsins sé virt, án þess að troðið sé á atvinnuréttindum þeirra sem fyrir eru. Það er vel hægt að gera þetta og við eigum að styrkja þetta ákvæði. Við eigum að líta til þess að jafnræðis verði gætt og tryggja rekstraröryggi. Aðalatriðið er að kerfið verði bæði réttlátt og hagkvæmt og menn virði að nytjastofnarnir í hafinu séu sameign þjóðarinnar.

Það er mjög umhugsunarvert ef ríkisstjórnin vill ekki lögfesta þetta nú. Ég á eftir að sjá að svo fari.