Almannatryggingar

Þriðjudaginn 16. febrúar 1999, kl. 16:17:53 (3689)

1999-02-16 16:17:53# 123. lþ. 66.43 fundur 316. mál: #A almannatryggingar# (tryggingaráð) frv., Flm. ÁE (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 123. lþ.

[16:17]

Flm. (Ágúst Einarsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. sem ég flyt ásamt þeim hv. þingmönnum Kristni H. Gunnarssyni, Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur og Össuri Skarphéðinssyni. Frv. er endurflutt og fjallar um að Landssamband eldri borgara tilnefni aðalmann í tryggingaráð, svo og Öryrkjabandalag Íslands. Frv. gengur út á það að fjölga í tryggingaráði úr fimm stjórnarmönnum í sjö en fá inn í ráðið fulltrúa helstu viðskiptavina Tryggingastofnunar.

Verkefni Tryggingastofnunar eru þrenns konar, þ.e. að annast lífeyristryggingar og að sjá um slysa- og sjúkratryggingar. Heilbr.- og trmrn. hefur umsjón með starfsemi Tryggingastofnunar ríkisins. Verksvið forstjóra er skýrt afmarkað í lögum. Tryggingaráð skal samþykkja fjárhagsáætlun, ársreikninga, iðgjaldaupphæðir, meginreglur um notkun heimildarákvæða, lánveitingar og atriði sem lög um almannatryggingar ákveða.

Samstarf tryggingaráðs og forstjóra er vitaskuld mjög náið og meginhugsunin í þessu er að þessir aðilar, sem eiga margir hverjir allt undir Tryggingastofnun ríkisins, fái líka beina aðild að stjórn hennar.

Okkur flutningsmönnum finnst að það hafi ekki verið hlustað af nægjanlegri athygli á skoðanir eldri borgara og öryrkja á undanförnum missirum. Þessir aðilar og hópar hafa reynt að sækja rétt sinn og þrýsta á stjórnvöld um að breyta um stefnu. Stundum hefur þetta borið árangur en stundum ekki. En eldri borgarar hafa skipulagt sig vel nú hin síðari ár. Núna eru starfandi 45 félög eldri borgara víðs vegar um landið. Stærst þessara félaga er Félag eldri borgara í Reykjavík og nágrenni en heildarsamtökin eru Landssamband eldri borgara. Einnig er vert að nefna, herra forseti, mjög virkan hóp eldri borgara, Aðgerðahóp aldraðra, sem hefur vakið athygli á fjölmörgum málum sem tengjast hagsmunum eldri borgara.

Frv. gerir ráð fyrir því að þessir nýju fulltrúar verði skipaðir í ráðið til tveggja ára.

Þess má geta að þetta mál var lagt fram í fyrra og var það sent út til umsagna og fékk einstaklega góð viðbrögð í samfélaginu, bæði hjá samtökum eldri borgara og öryrkja og margir þeirra komust svo að orði að þeir teldu mjög brýnt að lögfesta frv.

Frv. er einfalt í gerð sinni. Hugmyndin hefur reyndar heyrst áður þó að hún hafi e.t.v. hvorki verið lögð fram á þennan hátt né að leitað hafi verið jafnmikilla umsagna um málið og nú var gert þannig að ég treysti því, herra forseti, að þetta mál fái brautargengi hér á hinu háa Alþingi og að mætt verði hagsmunum eldri borgara og öryrkja hérlendis.

Að svo mæltu, herra forseti, leyfi ég mér að leggja til að málinu verði vísað til 2. umr. og til hv. heilbr.- og trn.