Aðgerðir til að bæta tengsl atvinnulífs og einkalífs

Þriðjudaginn 16. febrúar 1999, kl. 16:35:32 (3694)

1999-02-16 16:35:32# 123. lþ. 66.47 fundur 495. mál: #A aðgerðir til að bæta tengsl atvinnulífs og einkalífs# þál., MagnM
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 123. lþ.

[16:35]

Magnús Árni Magnússon:

Hæstv. forseti. Það var vel mælt hjá hv. þm. Pétri Blöndal áðan að fólk er ekki að vinna til að vinna heldur til að skapa eitthvað og það er nauðsynlegt að taka til skoðunar möguleika á auknum sveigjanleika á vinnumarkaði. Mér sýnist þessi tillaga miða að því og er það mjög vel. Hv. 10. þm. Reykv. Pétur Blöndal benti réttilega á að með aukinni tækni gefst kostur á mjög auknum sveigjanleika á vinnumarkaði. Fólk er farið að geta unnið mikið heima hjá sér sem það þurfti áður fyrr að stimpla sig inn í fyrirtækjum til að gera. Einnig má benda á að mikilvægi samverustunda foreldra með börnum er seint ofmetið og kemur það inn í umræðuna sem verið hefur í þingsalnum um agamálin og uppeldismálin, bæði í gær og í dag. Stimpilklukkan, það ágæta tæki sem dugað hefur 20. öldinni ágætlega, ætti smám saman að vera útlæg ger og áherslan á verkefnatengda vinnu en ekki dauða viðveru í fyrirtækjum þar sem slíks gerist ekki þörf, ætti að verða meiri. Ég þakka þessa umræðu og tel að hún sé brýn og vona að þessi tillaga hljóti framgang.