Kortlagning ósnortinna víðerna á Íslandi

Þriðjudaginn 16. febrúar 1999, kl. 16:45:51 (3697)

1999-02-16 16:45:51# 123. lþ. 66.48 fundur 327. mál: #A kortlagning ósnortinna víðerna á Íslandi# þál., PHB
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 123. lþ.

[16:45]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Ósnortin víðerni eru landsvæði þar sem ekki gætir beinna ummerkja mannsins samkvæmt skilgreiningu og maður spyr sig: Hvað með göngustíga sem eru lagðir um fjöll og firnindi? Hvað með tröppur sem eru lagðar í fjöll eins og í Þórsmörk?

Ég tel að mesti óvinur ósnortinna víðerna séu ferðamenn en ekki virkjanir, þ.e. sú mengun sem fylgir ferðamönnum, bæði sem einstaklingum og svo þeim farartækjum sem þeir nota. Ég vil bara benda hv. þingmönnum á að fara í Þórsmörk um helgi og sjá alla jeppamergðina sem þar er. Það er eins og í miðborg Reykjavíkur. Það er búið að reisa þorp í Húsadal. Það eru tröppur upp Valahnúk. Þetta eru ekki ósnortin víðerni fyrir tíu aura. Það ganga rútur í Dimmuborgir, heilu flotarnir, þannig að virkileg sjónmengun er að. Ég held að mesti óvinur ósnortinna víðerna séu ferðamennirnir og það þarf virkilega að fara að huga að því hvernig við gætum viðkvæmra náttúruperlna fyrir þeim ósköpum sem hellast yfir þær.

Á móti þessu stendur spurningin um það hvort það eigi að vera forréttindi þeirra sem geta gengið um landið að njóta þess. Hvað með öryrkja og hvað með veikburða fólk og hvað með þá sem ekki eru í góðu líkamlegu formi? Þarf ekki að leggja vegi um hálendið til þess að þeir geti notið þessara náttúruperlna? Þetta hefur ekkert verið rætt. Menn hafa takmarkað aðgang að náttúruperlunum við jeppaeign, t.d. Þórsmörk. Menn hafa takmarkað aðgang við að menn geti gengið. Ég spyr: Hvernig er með aðgang öryrkja og veikburða fólks? Ég held að hugtakið ,,ósnortin víðerni`` sé mótsögn í sjálfu sér.