Kortlagning ósnortinna víðerna á Íslandi

Þriðjudaginn 16. febrúar 1999, kl. 16:48:02 (3698)

1999-02-16 16:48:02# 123. lþ. 66.48 fundur 327. mál: #A kortlagning ósnortinna víðerna á Íslandi# þál., Flm. KH
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 123. lþ.

[16:48]

Flm. (Kristín Halldórsdóttir):

Herra forseti. Ég þakka hv. 10. þm. Reykv. fyrir áhuga hans á ósnortnum víðernum. Ég get náttúrlega ekki annað en mótmælt þeirri fullyrðingu að verstu óvinir ósnortinna víðerna séu ferðamenn en ekki virkjanir. Ástæðan fyrir því að ég mótmæli því er sú að það er þó yfirleitt hægt að afmá ummerki eftir ferðamenn en ekki eftir virkjanir. Ef reistar eru virkjanir og lagðar línur, þá er mjög erfitt að afmá þau ummerki. Ef hv. þm. gerði sér það ómak að kynna sér það sem fram kemur í fylgiskjalinu um niðurstöðu starfshópsins og í greinargerð og nánari skýringum, þá koma þar m.a. fram nánari skýringar á því hvað má og hvað má ekki innan ósnortins víðernis, með leyfi forseta:

,,Mannvirki, sem leyfð eru innan ósnortinna víðerna, skulu vera þannig gerð að mögulegt sé að fjarlægja þau og afmá ummerki eftir þau`` o.s.frv.

Ég vona að hv. þm. gefi sér tíma til að lesa þetta og velta því fyrir sér hvað hér er á ferðinni. Það er alveg rétt, og ég held að ég hafi komið að í máli mínu áðan, að ekki er hægt að finna neinn blett á Íslandi sem getur talist gjörsamlega ósnortinn. En viðfangsefni þessarar nefndar var að reyna að ná utan um það hvernig við vildum skilgreina þetta, móta afstöðu og gera tilraun til þess að nálgast það hvernig við getum varðveitt þessi landsvæði sem eru okkur ákaflega mikilvæg. Þetta hefur verið gert í öðrum löndum og þetta eru mjög líkar skilgreiningar og notaðar eru víða, t.d. í Bandaríkjunum, en Bandaríkjamenn hafa tekið ákveðið frumkvæði í þessum efnum og eiga sér langa sögu að baki í varðveislu ósnortinna víðerna. Við litum líka til þess hvernig skilgreiningar hafa verið mótaðar og eftir þeim farið í Noregi. Þetta er sem sagt mjög líkt því hvernig þeir hafa nálgast þetta verkefni. Tilgangurinn er auðvitað ekki að hefta för manna um þessi svæði heldur að reyna að móta reglur sem tryggja að þessi svæði eyðileggist ekki og verði ekki manngerð eins og við segjum.

Hvað varðar það sem hv. þm. sagði um aðgengi að þessum stöðum þá er ég ekki þeirrar skoðunar að það sé markmið í sjálfu sér að hver einasta manneskja geti komist á hvern einasta blett á Íslandi. Sem betur fer er landið okkar stórt og víða er hægt að fara um það hvernig svo sem aðstæður eru. En ég held að við værum að ganga ansi langt ef við ætluðum að tryggja það að það að allir geti komist á alla staði á Íslandi. Það held ég að gæti ekki verið markmið í sjálfu sér.