Greiðslur hlunninda og bifreiðastyrkja í ríkiskerfinu

Þriðjudaginn 16. febrúar 1999, kl. 17:01:43 (3700)

1999-02-16 17:01:43# 123. lþ. 66.49 fundur 470. mál: #A greiðslur hlunninda og bifreiðastyrkja í ríkiskerfinu# þál., GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 123. lþ.

[17:01]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Herra forseti. Ég vil þakka 1. flm. þessarar till. til þál. um endurskoðun á greiðslum hlunninda og bifreiðastyrkja í ríkiskerfinu, hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur, kærlega fyrir tillöguna. Þetta mál sýnir mjög vel annars vegar hvað það er fáránlegt að við skulum vera að ræða allan þennan fjölda góðra mála í dag án þess að ráðherrar eða fleiri þingmenn taki þátt og hins vegar hvað staða jafnréttismála er í raun og veru slök miðað við núgildandi lög. Hver úrskurðurinn á fætur öðrum liggur fyrir frá kærunefnd jafnréttismála en síðan gerist ekkert. Þó að bent sé á skýr lagabrot fréttist ekkert meira af málunum. Það er alveg með ólíkindum hvernig þessum málum er háttað. Sem betur fer eru að koma eða eru komin inn í þingið ný jafnréttislög en þetta er mjög gott dæmi um ástandið í jafnréttismálum. Það er lögð mikil vinna í að sýna fram á að það eigi sér stað brot á jafnréttislögum en síðan bara stoppar allt án þess að nokkuð gerist.

Herra forseti. Launamisrétti kynjanna hefur mjög oft komið til umræðu á þessu þingi og í þjóðfélaginu og þrátt fyrir að bent sé á að yfirleitt séu launataxtar ekki kynbundnir þó að það sé kannski erfitt að segja það þegar um er að ræða kynbundin störf. En ein ástæðan fyrir því að launamisrétti kynjanna er svona mikið, launamunur kynjanna eða kjaramunur, er einmitt þessar sporslur svokallaðar, þ.e. yfirvinnugreiðslur, bílahlunnindi og önnur hlunnindi. Þær upplýsingar sem koma fram á þessu þskj. eru náttúrlega svo sláandi að fyllsta ástæða er til að taka á þessu í ríkiskerfinu yfirleitt. Hér er fyrst og fremst verið að ræða um bankakerfið og þær niðurstöður sem þar koma fram eru mjög sláandi, þær tölur sem þar birtast, bæði um ástand jafnréttismála innan bankanna og einnig að þessir bílastyrkir eru yfirleitt mun hærri til karla en kvenna í sambærilegum stöðum. Það er með ólíkindum að þetta skuli viðgangast í þessum stofnunum og væri fróðlegt að vita hvernig þetta er í ríkiskerfinu almennt. Þess vegna styð ég eindregið að tillagan verði samþykkt og gerð verði úttekt á þessu í öllu ríkiskerfinu eins og hér er lagt til.

Ég tek undir með 1. flm. og harma það mjög að jafnréttisráðherra skuli ekki vera viðstaddur í dag til að svara fyrir um hvað varð um þessa niðurstöðu kærunefndar jafnréttismála sem sýndi alveg ótvírætt að um brot á jafnréttislögum er að ræða. Það verður að koma til mun skýrara ákvæði um sektir eða hvernig á að fylgja slíkum úrskurðum eftir því að það gengur ekki að hafa málin í þeim farvegi sem þau eru.