Seðlabanki Íslands

Þriðjudaginn 16. febrúar 1999, kl. 17:12:13 (3703)

1999-02-16 17:12:13# 123. lþ. 66.50 fundur 465. mál: #A Seðlabanki Íslands# frv., Flm. ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 123. lþ.

[17:12]

Flm. (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. 15. þm. Reykv., Magnúsi Árna Magnússyni, fyrir þetta innlegg sem var mjög þarft í umræðuna. Það er rétt sem hann kom fram með að þegar einn bankastjóri væri orðinn hjá Seðlabankanum vegna þess hversu hlutverk bankans er mikilvægt, þá þarf auðvitað að ráða slíkan seðlabankastjóra á öðrum forsendum. Það þyrfti sjálfsagt að gera frekari endurskoðun á lögum um Seðlabankann. En hér er mjög einfalt mál á ferðinni, einfalt frv. sem ætti að vera hægt að koma í framkvæmd á einfaldan og skjótan hátt. Ég sakna þess, herra forseti, að hæstv. bankamálaráðherra skuli ekki sinna því að vera hér við þessa umræðu. Bæði var verið að ræða mikilvægt mál áðan um jafnréttismálin og stöðu kvenna í bankakerfinu og nú er mikilvægt mál á ferð þar sem er fækkun bankastjóra í Seðlabankanum þannig að ég harma það að hæstv. ráðherra skuli ekki sjá sér fært að vera hér viðstaddur umræðuna og hefði talið að þetta hefði verið í hans anda að fækka á þessum stað samanber fækkun bankastjóra í Landsbankanum. Því miður, hér sýnir sig enginn ráðherra í allri þessari umræðu nú seinni partinn og er það leitt að ráðherrar skuli ekki hafa áhuga á því að kynna sér hvað hér er á ferðinni því um er að ræða mörg mikilvæg mál. En það þýðir lítið að harma það mikið. Þeir sinna þessu ekki. Ég vonast engu að síður til að efh.- og viðskn. taki á þessu máli og komi því í gegnum nefndina fyrir þinglok því að ég tel að þetta sé mikið þjóðþrifamál og í anda ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar.