Rannsókn á ofbeldi gegn börnum

Þriðjudaginn 16. febrúar 1999, kl. 17:14:54 (3704)

1999-02-16 17:14:54# 123. lþ. 66.53 fundur 496. mál: #A rannsókn á ofbeldi gegn börnum# þál. f, Flm. KÁ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 123. lþ.

[17:14]

Flm. (Kristín Ástgeirsdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um rannsókn á ofbeldi gegn börnum.

Á síðasta þingi flutti ég fyrirspurn um ofbeldi gegn börnum og skemmst frá því að segja að svarið leiddi í ljós allskelfilegar tölur. Þegar nánar var að gáð kom í ljós að skráningu hafði verið mjög ábótavant og því voru tölurnar ekki eins skelfilegar og virtist í fyrstu og tilvik stundum tvítalin. En þær voru nógu slæmar samt. Það er skoðun mín að mikil þörf sé á því að rannsaka ofbeldi sem börn eru beitt á mjög víðum grundvelli. Hér hafa farið fram rannsóknir á kynferðislegu ofbeldi gegn börnum og gripið hefur verið til aðgerða til þess að bæta nokkuð úr gagnvart þolendum þess með stofnun Barnahússins en það eru fleiri tegundir ofbeldis sem þarf að rannsaka. Þar á ég við ofbeldi á heimilum, þ.e. annað ofbeldi en kynferðislegt, ofbeldi í skólum, þar með taldir leikskólar, ofbeldi á götum úti, á skólalóðum og víðar, ofbeldi sem börn verða fyrir.

Slíkar rannsóknir hafa verið gerðar í öðrum löndum og því miður hafa niðurstöður leitt ýmislegt skelfilegt í ljós. Við erum að ræða um hluti sem eru býsna duldir eða hafa kannski ekki verið teknir nógu alvarlega.

Komið hefur í ljós að þau tilvik sem koma upp þar sem ofbeldi á í hlut eru býsna mörg og í greinargerðinni er greint frá þeirri könnun sem gerð var á kynferðislegu ofbeldi og í rauninni eru þær tölur alveg skelfilegar. Nýlega bárust fréttir af því að þeir sem leitað hafa aðstoðar Barnahússins hafa verið miklu fleiri en ráð var fyrir gert þannig að það er oft svo að þegar rannsókn er gerð og gripið til aðgerða, þá opnast leið og málin koma upp á yfirborðið.

Að mínum dómi er ofbeldi gagnvart börnum með því skelfilegasta sem hægt er að hugsa sér og það að lítil börn skuli lifa í ótta bæði við önnur börn og fullorðna er aldeilis hræðilegt og þarf að grípa til aðgerða.

Eftir að þessi tillaga kom fram hef ég fengið nokkur viðbrögð, m.a. frá kennurum sem segja mér að ofbeldi í skólum sé miklu meira og duldara en menn vilja viðurkenna eða menn gera sér grein fyrir og að því miður séu málin látin dankast ansi mikið þar, það vanti skilning á því hvað ber að gera og farveg þegar slíkt ofbeldi á í hlut. Því er það tillaga mín að fram fari rannsókn á hvers kyns ofbeldi gegn börnum, að hér verði farin sama leið og farin var þegar rannsóknin var gerð á ofbeldi gegn konum, þ.e. heimilisofbeldi, fram fari rannsókn og greining á umfangi og afleiðingum hvers kyns ofbeldis gegn börnum. Lögð verði fram skýrsla á Alþingi og síðan verði unnið á grundvelli hennar að frekari tillögum um það til hvaða aðgerða skuli gripið.

Að lokinni þessari umræðu, hæstv. forseti, legg ég til að tillögunni verði vísað til hv. félmn. og til síðari umræðu.