Greiðsla á bótum til þolenda afbrota

Þriðjudaginn 16. febrúar 1999, kl. 18:14:24 (3712)

1999-02-16 18:14:24# 123. lþ. 66.59 fundur 435. mál: #A greiðsla á bótum til þolenda afbrota# frv., KÁ
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 123. lþ.

[18:14]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Mig langar til að taka undir þessa tillögu. Mér finnst þetta vera mjög gott og þarft mál og hv. 1. flm. gerði rækilega grein fyrir málinu. Ég vil taka undir að sú regla er býsna sérkennileg þar sem miðað er við 14 ára aldur og mig rak í rogastans við að sjá þetta hér. Ég var búin að gleyma því að slík lög skuli hafa verið sett árið 1998 eftir að búið var að hækka sjálfræðisaldurinn. Maður sér engin rök fyrir því að miða við 14 ára aldur frekar en eitthvað annað. Það væri alveg eins hægt að miða við 12 eða 16 ára aldur. En ég tek undir að það er auðvitað eðlilegt ef menn eru að miða við einhvern aldur, þá eigi að miða við sjálfræðisaldur barna.

Hins vegar vaknar sú spurning hvort jafnhrikalega alvarlegir glæpir og kynferðisafbrot gagnvart börnum eru eigi að fyrnast. Eiga slíkir glæpir að fyrnast? Því oft er þarna um sálarmorð að ræða. Ég lít þessa glæpi svo alvarlegum augum að mér finnst spurning hvort þeir eigi að fyrnast. Þó að þetta sé réttarbót í þeim lögum sem nú gilda, þá var það nú svo að meðferð þessara mála fyrir dómstólum var til skammar og skilningsleysið og hvernig þessum málum var meira og minna stungið undir stól. Ég veit um nokkur dæmi þess að slík mál hafa gegnum áratugi og aldir verið þögguð niður. En börnin eru einmitt sá hópur sem þarf að vernda sem allra best. Því tek ég undir efni þessarar tillögu og vona að hún nái fram að ganga á þessu þingi.