Málefni aldraðra

Þriðjudaginn 16. febrúar 1999, kl. 18:27:38 (3716)

1999-02-16 18:27:38# 123. lþ. 66.65 fundur 211. mál: #A málefni aldraðra# (samtök aldraðra) frv., Flm. JóhS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 123. lþ.

[18:27]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um málefni aldraðra sem ég flyt ásamt hv. þm. Margréti Frímannsdóttur, Guðnýju Guðbjörnsdóttur, Rannveigu Guðmundsdóttur, Svavari Gestssyni og Kristínu Halldórsdóttur.

Efni þess er að gera breytingu á lögum um málefni aldraðra í þá veru að samráð skuli haft við heildarsamtök aldraðra og aðildarfélaga þeirra um opinbera stefnumörkun og ákvarðanir er varða hag og kjör aldraðra.

Í lögum um málefni aldraðra eru ákvæði um störf samstarfsnefndar um málefni aldraðra en í þeirri nefnd eiga sæti einn fulltrúi, tilnefndur af öldrunarráði og einn af Sambandi ísl. sveitarfélaga og einn án tilnefningar. Verkefni samstarfsnefndarinnar eru að vera tengiliður milli ráðuneyta og stofnana og samtaka sem starfa að málefnum aldraðra og vera heilbrrh. og ríkisstjórn til ráðuneytis um málefni þeirra.

Í lögum um málefni fatlaðra er svipað ákvæði að því er varðar stjórnarnefnd um málefni fatlaðra en í þeim lögum er líka ákvæði sem hefur reynst mjög vel að því er varðar þennan málaflokk, málefni fatlaðra, þ.e. að heildarsamtök fatlaðra og félög þeirra geta haft áhrif á ákvarðanir um málefni sín, svo sem með því að leitað er umsagna til heildarsamtaka fatlaðra eða sérstakra félaga þeirra eða styrktarfélaga fatlaðra sem hlut eiga að máli hverju sinni við gerð og framkvæmd áætlana, laga og reglugerða er fatlaða varða. Þetta ákvæði hefur sannað gildi sitt en á undirbúningsstigi er leitað til samtaka fatlaðra um ýmis mál, bæði reglugerðir og frumvörp er snerta málaflokka þeirra og ég held að það hafi reynst mjög farsælt.

Ég held að það sé ljóst að við höfum orðið þess vör að á síðari árum hafa aldraðir látið sig meira skipta kjör sín, afkomu og aðbúnað, en aldraðir, 67 ára og eldri, eru um 27 þúsund manns og það er mjög mikilvægt að aldraðir geti á undirbúningsstigi komið sjónarmiðum sínum á framfæri við stjórnvöld og því eðlilegt að tryggð sé aðild þeirra að nefndarstarfi á vegum ráðuneyta þar sem fjallað er um málefni þeirra, ekki síst þau sem hafa áhrif á afkomu og aðbúnað þeirra. Ég held að það sé ákaflega mikilvægt og til þess fallið að stuðla að lýðræðislegum ákvörðunum að lögbinda slíkt samráð og samvinnu við Samtök aldraðra eins og hér er lagt til enda hafa aldraðir engan samningsrétt um kjör sín.

[18:30]

Ég held að það sé alveg ljóst að á því kjörtímabili sem nú er að líða hafa aldraðir átt töluvert undir högg að sækja hjá ríkisstjórninni, a.m.k. sáu þeir ástæðu til þess fyrir tveim árum að standa fyrir utan þinghúsið í upphafi þings til þess að vekja athygli á bágum kjörum fjölda aldraðra. Ég vil í því sambandi nefna nýlegt fréttabréf sem ég hef fengið í hendur, það er fréttabréf SFR og heitir Lífeyrisþeginn. Þar kemur fram, herra forseti, að stjórn Sambands lífeyrisþega ríkis og bæja harmi hve illa gengur að rétta hlut lífeyrisþega. Á yfirstandandi kjörtímabili skorti 1.860 millj. kr. til að jafnvægi næðist við greiðslur lífeyris almannatrygginga og í upphafi kjörtímabils.

Í þessu sambandi er rétt að vekja athygli á því að núverandi ríkisstjórn, eins og reyndar hér er sagt, ruddi burt tengingu ellilífeyris almannatrygginga við launaþróun í landinu með þeim afleiðingum að lífeyrisgreiðslur hafa hækkað miklu minna en lágmarkslaun í landinu eða launavísitala og hefur það komið mjög niður á kjörum aldraðra.

Þeir vekja líka athygli á að greiðslur sem þeir fá úr lífeyrissjóðum eru skattlagðar með fullu skatthlutfalli, sennilega núna á milli 38 og 39% meðan fjármagnstekjur eru einungis skattlagðar um 10%, og vekja athygli á því að 2/3 þeirra greiðslna sem þeir fá úr lífeyrissjóðum eru ekkert annað en fjármagnstekjur.

Í þeim málum sem ég nefni hér, sem eru stór mál fyrir aldraða, hefði verið full ástæða fyrir ríkisstjórnina og stjórnvöld að hafa samráð við aldraða á undirbúningsstigi þegar verið var að taka þessar ákvarðanir, bæði varðandi fjármagnstekjuskattinn, svo dæmi sé nefnt, og um aftengingu á greiðslum úr almannatryggingum við launaþróun í landinu. Þetta eru dæmi um mál sem hefði átt að hafa fullt samráð um við Samtök aldraðra.

Það er tilefnið til þess að þetta mál er flutt að tekið verði upp skipulagt samstarf við aldraða á þessu sviði með sama hætti og hefur verið gert um langan tíma í málefnum fatlaðra sem hefur gefið mjög góða raun og árangur.

Ég legg til að að lokinni umræðunni verði frv. vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn.