Skattframtöl

Miðvikudaginn 17. febrúar 1999, kl. 13:55:57 (3723)

1999-02-17 13:55:57# 123. lþ. 68.26 fundur 418. mál: #A skattframtöl# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., fjmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 123. lþ.

[13:55]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Hv. fyrirspyrjandi hreyfði hér framfaramáli sem lengi hefur verið á döfinni í skattkerfinu og reyndar mun lengur en ætla má af ábendingum Ríkisendurskoðunar, sem um er spurt í 1. lið fyrirspurnarinnar. Þó nokkur ár eru síðan farið var að huga að því hvort hægt væri að einfalda framtöl einstaklinga sem ekki eru með atvinnurekstur, ekki eru með verktakagreiðslur eða aðra sambærilega þætti á framtölum sínum þannig að þeir geti fengið viss atriði útfyllt fyrir fram og þurfi ekki annað en staðfesta að upplýsingarnar séu réttar. Þetta mál er í vinnslu og ætlunin er að sjálfsögðu að reyna að mjaka því áfram á næstunni.

Í þessum efnum hefur margt gerst á undanförnum árum. Staðlað framtal lögaðila hefur verið tekið upp og á þessu ári geta einstaklingar og lögaðilar skilað framtölum sínum í gegnum veraldarvefinn. Þegar hefur töluverður hópur gengið þannig frá framtölum sínum þótt reyndar hafi margir fengið frest fram til mánaðamóta.

Varðandi það hvort skattframtöl einstaklinga verði þannig í framtíðinni að þeir geti undirritað þau án þess að fylla mikið út sjálfir, þá mun slík framkvæmd byggja á upplýsingum frá þriðja aðila í mjög ríkum mæli. Margt af því skapar ekki vandamál. Upplýsingar frá Fasteignamati, ökutækjaskrá, launagreiðendum eða lífeyrissjóðum eiga ekki að skapa vandamál. Hins vegar er spurning um upplýsingar frá fjármálastofnunum vegna þess að þar ríkir bankaleynd. Hugsanlega mætti komast fram hjá því með samþykki viðkomandi eins og fyrirspyrjandi gat um. Það er nokkuð sem kanna þyrfti sérstaklega. Stefnan er sem sagt í þessa átt.

Ég vil geta þess að á árinu 1997 var gerð áætlun um hvernig einfalda mætti einstaklingsframtal skattgreiðenda. Stefnt var að því að hefja véltæk skil á árinu 1999 og það hefur gengið eftir eins og ég gat um. Nú er gert ráð fyrir því að þróa þessi véltæku skil enn frekar og stækka þann hóp sem geti hagnýtt sér þau.

Þá er einnig verið að undirbúa áritun á framtöl fyrir ákveðna markhópa sem hafa lítið umleikis, svo sem lífeyrisþega og ungmenni. Á árinu 1997 var farið sérstaklega yfir framtöl einstaklinga með tilliti til þessara skilyrða og þá var talið að 30--40 þúsund framteljendur gætu vandræðalaust fengið einfaldari framtöl eða um 20--25% allra framteljenda. Þar er eingöngu gert ráð fyrir því að framteljandinn bæti við upplýsingum um fjármagnstekjur, undirriti framtalið og sendi til skattyfirvalda. Ekki hefur enn tekist að hrinda þessu í framkvæmd en áfram er unnið að málinu sem ég held að allir séu sammála um að sé hið besta mál.

Hins vegar er ljóst að ekki er hægt að koma öllum einstaklingsbundnum upplýsingum inn í slík forrit. Ökutækjaskrá gefur t.d. upp hvað menn eiga af farartækjum en ekki verðmæti þeirra. Bílar afskrifast o.s.frv. Það mundu menn þurfa að fylla út sjálfir og sama er að segja um ýmsar aðrar upplýsingar, eftir því hve flókin framtölin eru. Í aðalatriðum ætti að vera hægt að fara þessa leið. Sem dæmi um slíka hluti eru t.d. dagpeningagreiðslur, ökutækjastyrkir og þess háttar sem hvergi liggja fyrir í miðlægum skrám og viðkomandi verður að gera grein fyrir án atbeina þriðja aðila.

Fyrirspyrjandi spyr hvort ekki sé ástæða til að ætla að þetta muni bæta skil á framtölum og fækka áætlunarframtölum. Ég geri ráð fyrir að það muni hjálpa til í þeim efnum þótt erfitt sé að fullyrða um það. Gera má ráð fyrir að þetta dragi úr áætlunarframtölum, sérstaklega hjá einstaklingum sem hafa af einhverjum ástæðum ekki sinnt, hirt um eða hafa hreinlega ekki aðstöðu eða getu til að sinna framtalsskyldu.

Þetta mál er sem sagt á vinnslustigi. Það er ómögulegt að fullyrða um það hvenær hægt er að hrinda þessu í framkvæmd. Ég er sammála fyrirspyrjenda um að þetta sé rétt stefna og vonandi tekst okkur að mjaka málunum áleiðis á næstu árum.