Handverk og hönnun, ráðgjafarþjónusta

Miðvikudaginn 17. febrúar 1999, kl. 14:25:58 (3734)

1999-02-17 14:25:58# 123. lþ. 68.2 fundur 293. mál: #A Handverk og hönnun, ráðgjafarþjónusta# fsp. (til munnl.) frá forsrh., Fyrirspyrjandi ArnbS
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 123. lþ.

[14:25]

Fyrirspyrjandi (Arnbjörg Sveinsdóttir):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Eins og fram kom í svari hans er um atvinnugrein að ræða sem er orðin mjög mikilvæg í þjóðlífi okkar og hún er orðin mikilvæg í atvinnulegu tilliti víða úti um land. Hins vegar er afskaplega mikilvægt að hér verði staðið vel að verki og að við höldum uppi merki gæðaframleiðslu.

Þessi atvinnugrein tengist bæði menningarlífinu og ferðaþjónustunni og hún segir eitthvað um það hvert menningarstig þjóðar okkar er þannig að hér er um mjög merkilegt fyrirbrigði að ræða. Opinber afskipti eðli málsins samkvæmt tel ég að þyrftu fyrst og fremst að vera í ráðgjafarformi. Það er sú starfsemi sem þarf að styrkja og ég er mjög ánægð með að það kom fram í svari ráðherra að hugmyndir eru um það, og það er tillaga þeirrar nefndar, sem unnið hefur að málinu, að sú starfsemi verði áfram og verði tengd út um land í gegnum net atvinnuráðgjafanna.

Einnig kom fram í svari ráðherrans að það á að huga að þjóðbúningnum okkar og það held ég að sé vel. Einnig kom fram að komið verði á skipulögðu námi fyrir handverksfólk í Myndlista- og handíðaskóla Íslands. Það er auðvitað mjög af hinu góða, ef sú pólitíska ákvörðun verður tekin, að farið verði út í aukna menntun í þessu fagi.

En það er sem sagt fyrst og fremst áríðandi að þessu bráðabirgðaástandi ljúki og sú pólitíska ákvörðun verði tekin að slíkt verkefni verði áfram til staðar til stuðnings þessari atvinnugrein.