Söfnunarkassar

Miðvikudaginn 17. febrúar 1999, kl. 14:38:42 (3739)

1999-02-17 14:38:42# 123. lþ. 68.5 fundur 33. mál: #A söfnunarkassar# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 123. lþ.

[14:38]

Fyrirspyrjandi (Ögmundur Jónasson):

Hæstv. forseti. Á löggjafarþinginu 1997--1998 komu fram tvö frv. um svokallaða spilakassa. Fyrsti flm. þessara frv. var hv. þm. Guðrún Helgadóttir en fleiri komu þar einnig við sögu, þar á meðal sá sem hér stendur sem meðflutningsmaður. Markmiðið með þessum frv. var að koma í veg fyrir fjárhættuspil og banna þeim aðilum sem þau reka að stunda slíka starfsemi. Á það var lögð áhersla í grg. með frv. að spilafíkn væri vaxandi vandamál á Íslandi og væru þess mörg dæmi að fólk glataði aleigu sinni í fjárhættuspilum.

Þegar lögum um Happdrætti Háskóla Íslands var breytt á sínum tíma og lög voru sett um Íslenska söfnunarkassa í eigu Rauða kross Íslands, Landsbjargar, SÁÁ og Slysavarnafélags Íslands, er óhætt að segja að margir hafi verið fullir efasemda. Það átti bæði við innan þings og utan. Staðreyndin er án efa sú að stuðningur við þau lög sem hér er vísað til hafi byggst á góðum málstað þeirra sem heimilað var að afla fjár með þessum hætti. Frá því þetta gerðist hefur tvennt komið í ljós. Þeir aðilar sem hér um ræðir hafa líkt og spilafíklarnir orðið háðir þessari fjáröflun og reiðast því jafnvel stundum þegar hún er gagnrýnd. Hreinar tekjur af kössunum voru á árinu 1997 1.120 millj.kr., þar af 310 millj. til Háskóla Íslands, 809 millj. til þeirra aðila sem standa að Íslenskum söfnunarkössum.

Þessir peningar skipta máli fyrir þá sem fá arðinn af spilakössunum í sinn vasa, og ógjarnan vilja þeir verða af honum. Hitt er svo annað mál að veltan af þessum kössum er miklu meiri en nemur þessum upphæðum. Þannig hækkar upphæðin í 1,7 milljarða á árinu 1997 ef kostnaður er ekki dreginn frá. En tölur eru ekki til um heildarveltuna, þ.e. ef engir vinningar eða kostnaður er dreginn frá. Þá kemur í ljós hve miklum fjármunum landsmenn pumpa inn í þetta spilavítiskerfi.

Einstaka maður er heppinn en flestir sitja eftir með sárt ennið. Vogun vinnur, vogun tapar. Á því byggir fíknin.

Á árinu 1996 innrituðust 85 einstaklingar í stuðningshóp SÁÁ-spilafíkla. Árið eftir var talan komin yfir 90 og samkvæmt upplýsingum sem ég aflaði hjá SÁÁ í tengslum við þessa fyrirspurn hafa nýlegar rannsóknir á vegum SÁÁ leitt í ljós að spilafíkn eykst jafnt og þétt á Íslandi, sérstaklega hjá ungu fólki. Þá er það spurningin sem eftir stendur, þ.e. hversu góður sá málstaður geti orðið sem aflar tekna með þessum hætti.

Liðið vor samþykkti Alþingi að vísa fyrrnefndum lagafrv. um bann við fjárhættuspilum til ríkisstjórnarinnar í þeirri trú að hún mundi aðhafast í málinu, enda sú málsmeðferð að hún tæki málið til afgreiðslu, samþykkt af hálfu stjórnarmeiri hlutans, ekki síður en minni hlutans. Nú er spurt um efndir.