Söfnunarkassar

Miðvikudaginn 17. febrúar 1999, kl. 14:42:08 (3740)

1999-02-17 14:42:08# 123. lþ. 68.5 fundur 33. mál: #A söfnunarkassar# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 123. lþ.

[14:42]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Vegna þessarar fyrirspurnar er rétt að minna á að þegar Alþingi sér ekki ástæðu til að álykta annað um mál, þá getur það vísað máli til ríkisstjórnarinnar. Með öðrum orðum, í því máli sem hér er hreyft lýsti Alþingi því yfir að það sæi ekki ástæðu til að álykta annað í málinu. Þetta liggur ljóst fyrir og er nauðsynlegt að öllum sé ljóst í tilefni af þeirri fyrirspurn sem hér er borin fram.

Að öðru leyti get ég sagt frá því að í febrúarmánuði á síðasta ári, þ.e. nokkrum mánuðum áður en Alþingi samþykkti að vísa þessu máli til ríkisstjórnarinnar og lýsa því yfir að það sæi ekki ástæðu til að álykta um málið, gerði ég ríkisstjórninni grein fyrir stöðu happdrættismála og lagði til að skipuð yrði nefnd ráðuneyta til að fjalla um þau mál, móta framtíðarstefnu og leggja línur um heildstæðar lausnir. Þessi nefnd hefur starfað síðan og ég á von á að niðurstöður hennar liggi fyrir alveg á næstu dögum. Þær verða þá kunngerðar og tekin ákvörðun um framhald þeirrar vinnu í ljósi niðurstöðu nefndarinnar.

Varðandi síðari lið fsp. er það að segja að ég hef ekki verið reiðubúinn að beita mér fyrir því að svipta þau félagasamtök sem njóta tekna á þennan hátt þessum mikilvægu fjáröflunarleiðum og mun ekki gera það. Það kemur svo til álita þegar heildarendurskoðun fer fram á þessum lögum hvaða breytingar eða hvort breytingar verða gerðar hér á. Það er of snemmt að segja til um það.