Söfnunarkassar

Miðvikudaginn 17. febrúar 1999, kl. 14:44:42 (3741)

1999-02-17 14:44:42# 123. lþ. 68.5 fundur 33. mál: #A söfnunarkassar# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 123. lþ.

[14:44]

Fyrirspyrjandi (Ögmundur Jónasson):

Hæstv. forseti. Ég veit að það er venja að þakka hæstv. ráðherrum fyrir svörin og ég ætla ekki að bregðast þeirri venju, en jafnframt vil ég lýsa mikilli undrun á svari hæstv. ráðherra. Hann byrjaði mál sitt á því að segja að sú málsmeðferð að vísa þessum frumvörpum til afgreiðslu hjá ríkisstjórninni jafngilti vilja Alþingis um að ekkert yrði aðhafst í málinu. Þessi málsmeðferð var a.m.k. af minni hálfu samþykkt í trausti þess að ríkisstjórnin aðhefðist í þessu alvarlega máli.

[14:45]

Árið 1997 kom hingað góður gestur í boði SÁÁ. Það var bandarískur prófessor í geðlækningum, Sheila B. Blume, en hún starfar við háskólann í New York og er auk þess stjórnandi meðferðarstofnunar fyrir áfengis-, eiturlyfja- og spilafíkla í þeirri sömu borg. Við þessa konu var haft viðtal í sjónvarpinu á sínum tíma þar sem hún sagði m.a.:

,,Spilafíkn er grafalvarleg samanborið við drykkjusýki. Áfengissýki eyðileggur fjölskyldu, konu, mann og börn, en spilafíkn eyðileggur fyrir mörgum kynslóðum. Ekki er einungis auði nærfjölskyldunnar sóað heldur foreldra, afa og ömmu, barna og barnabarna, svo spilafíkn fer verr með fjölskyldur en áfengissýki.``

Síðan er rætt um það áfram í þessu viðtali eða þessari frétt hve margir hafi fengið meðferð á Vogi og að margir hafi verið sendir þangað vegna þess að óttast hafi verið að þeir sviptu sig lífi.

En hæstv. dómsmrh. segist ekki vilja svipta þá aðila sem afla tekna á þennan hátt þessum fjáröflunarmöguleika. Mér finnst, hæstv. forseti, vera tekið á mjög alvörulausan hátt á þessu alvarlega máli. Ég spyr hæstv. dómsmrh. hvort ekki hafi verið orðið við þeirri samþykkt eða farið eftir samþykkt Alþingis frá því í vor um að taka þessi mál til umfjöllunar í ríkisstjórninni. Það var samþykkt hér á Alþingi.