Réttarstaða fólks í hjúskap og óvígðri sambúð

Miðvikudaginn 17. febrúar 1999, kl. 14:50:44 (3743)

1999-02-17 14:50:44# 123. lþ. 68.6 fundur 372. mál: #A réttarstaða fólks í hjúskap og óvígðri sambúð# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi RG
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 123. lþ.

[14:50]

Fyrirspyrjandi (Rannveig Guðmundsdóttir):

Herra forseti. Fsp. mín til dómsmrh. hljóðar svo: Hefur ráðherra beitt sér fyrir kynningu á réttarstöðu fólks í hjúskap og óvígðri sambúð, samanber ályktun Alþingis um opinbera fjölskyldustefnu frá 13. maí 1997? Og ef svo er, hvernig hefur kynningarstarfsemi verið háttað?

Í þingsályktun um fjölskyldustefnu sem Alþingi samþykkti segir að réttindi og skyldur sambúðarfólks verði skilgreind í lögum. Og í nál. félmn., eftir að nefndin afgreiddi tillöguna frá sér, segir að hún vilji leggja áherslu á að upplýsingar og fræðsluefni um samanburð --- takið eftir --- samanburð á réttarstöðu fólks í hjúskap og óvígðri sambúð þurfi að liggja fyrir og bendir á nauðsyn þess að slíkt efni verði kynnt almenningi. Einnig er lagt til að það verði eitt af almennum markmiðum stjórnvalda að fjölskyldur sjúkra og annarra hópa eftir því sem við á skuli, eins og fjölskyldur fatlaðra, njóta nauðsynlegs stuðnings í ljósi aðstæðna hverju sinni. Enn fremur verði að efla skilning á eðli fjölskyldunnar, hlutverki, myndun og upplausn. Og því nefni ég þessi síðari atriði að þau eru auðvitað nátengd fólki í hjúskap.

Ég vil líka geta þess, herra forseti, að á 120. löggjafarþingi var flutt till. til þál. af þingkonum Kvennalistans um miðlun upplýsinga um réttarstöðu fólks í vígðri og óvígðri sambúð. Þá var skilgreindur í greinargerð helsti munur sem lögð var áhersla á í þeirri tillögu.

Það er alkunna að almenningur er óupplýstur um réttindi og skyldur í svo veigamiklum málum sem t.d. stofnun hjúskapar og það er allt of útbreidd lögvilla að fólk heldur að allt aðrar reglur gildi um óvígða sambúð en raun ber vitni. Lögmenn segja mér að það sé allt of algengt að fólk haldi að það ávinni sér einhver lagaleg réttindi við óvígða sambúð, ýmist eftir einhvern tíma eða eftir að sambúðarfólk hefur eignast börn saman. Þegar síðan allt er komið í óefni í sambúðinni eða við andlát annars sambúðaraðila kemur í ljós að hitt er algjörlega réttlaust varðandi eingaskiptingu, rétt til setu í óskiptu búi eða erfðarétt.

Hér er ekki verið að mæla fyrir um að sömu reglur ættu að gilda í óvígðri sambúð og hjúskap. Þvert á móti tel ég að hér ætti að vera nokkurt val fyrir einstaklinga. Sumir vilja blanda saman fjárhag sínum og hafa sameiginlegt fjárfélag. Aðrir vilja halda eignum sínum sér og hafa skiptan fjárhag þrátt fyrir sambýli. Herra forseti. Slíkt val verður að byggjast á þekkingu á réttindum og skyldum, það þarf að vera upplýst val. Því verða stjórnvöld að miðla upplýsingum um þær mismunandi reglur sem gilda, annars vegar í hjúskap og hins vegar í óvígðri sambúð, og það var ósk félmn. þegar hún afgreiddi þessa tillögu frá sér.