Réttarstaða fólks í hjúskap og óvígðri sambúð

Miðvikudaginn 17. febrúar 1999, kl. 14:55:27 (3745)

1999-02-17 14:55:27# 123. lþ. 68.6 fundur 372. mál: #A réttarstaða fólks í hjúskap og óvígðri sambúð# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi RG
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 123. lþ.

[14:55]

Fyrirspyrjandi (Rannveig Guðmundsdóttir):

Herra forseti. Alloft þegar við þingmenn komum með fyrirspurnir erum við ósátt við svörin og gagnrýnum þau harðlega. Að þessu sinni fagna ég svarinu. Mér finnst mjög jákvætt að verið sé að vinna að þessum upplýsingaritum og miðað við þær upplýsingar sem komu fram hjá ráðherranum er verið að taka til flestra þeirra atriða sem rætt var um í félmn.

Samhliða því að ég fagna þessum upplýsingum hlýt ég að nefna að þetta nál. er frá 121. löggjafarþingi og áður, á þinginu á undan, var búið að flytja tillögu um að slíkar upplýsingar yrðu unnar. Það er nokkurt áhyggjuefni hvað það tekur langan tíma frá því að vilji Alþingis er settur fram þar til framkvæmdarvaldið framkvæmir þennan góða vilja. Og af því að mér finnst nokkuð langur tími hafa liðið frá því að óskað var eftir því að þessi upplýsingarit yrðu unnin þar til þessar upplýsingar koma fram þá hlýt ég að spyrja ráðherrann hvenær sé gert ráð fyrir að þessi upplýsingarit verði tilbúin. En jafnramt er ég mjög ánægð með að þau muni verða fyrirliggjandi á flestum stöðum þar sem skiptir máli að þau séu og líkur eru á að fólk, sem er í þeim aðstæðum sem um er rætt, komi til að fá upplýsingar um stöðu sína.