Flugsamgöngur á Vestfjörðum

Miðvikudaginn 17. febrúar 1999, kl. 15:27:22 (3761)

1999-02-17 15:27:22# 123. lþ. 68.9 fundur 265. mál: #A flugsamgöngur á Vestfjörðum# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi SighB
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 123. lþ.

[15:27]

Fyrirspyrjandi (Sighvatur Björgvinsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Það má þá gera ráð fyrir því að næsta haust verði flugsamgöngur á milli norður- og suðursvæða Vestfjarða komnar í varanlegt horf en ekki bráðabirgðalausnir í gangi. Væntanlega mun hæstv. ráðherra og ráðuneyti hans takast að ljúka þeirri útboðsgerð sem þarf til að fullnægja þeim kröfum sem gerðar eru í fjölþjóðasamningum sem við eigum aðild að.

Það vakti athygli mína að hann sagði að nú væri í ráðuneytinu til athugunar hvernig tryggja mætti áframhaldandi flugrekstur milli þessara svæða a.m.k. fram á vorið þar til vegir opnuðust. Það vakti líka athygli mína að hann taldi að þar kæmu bæði flugfélögin sem lýst hafa áhuga á þeim rekstri til greina, þ.e. bæði Íslandsflug og flugfélagið Jórvík. Ég hvet hæstv. ráðherra til þess að ákveða sem fyrst hvor af þessum tveimur fái flugið. Ég vænti þess að það verði gert, eins og hann sagði sjálfur, á grundvelli verðkönnunar og fari eftir því hvor býður hagstæðari kjör.