Eftirlit með ferðaskrifstofum

Miðvikudaginn 17. febrúar 1999, kl. 15:41:36 (3766)

1999-02-17 15:41:36# 123. lþ. 68.10 fundur 432. mál: #A eftirlit með ferðaskrifstofum# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 123. lþ.

[15:41]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Ég vil fyrst segja að það er misskilningur hjá hv. þm. ef hann heldur að samgrn. komi ekki beint að þessum málum. Það er síður en svo. Starfsmenn samgrn. hafa lagt mikla vinnu í að koma tryggingamálum ferðaþjónustunnar í samt lag í samræmi við umfang og starfsemi einstakra ferðaskrifstofa, í samræmi við þau lög sem nú eru í gildi.

Ég vil einnig benda á að Neytendasamtökin eru aðili að þessari kvörtunarnefnd til þess að tryggt sé að þau mál sem berast þeim komi sjálfkrafa til nefndarinnar.

Herra forseti. Niðurlag svars míns er svohljóðandi: Ferðaskrifstofan Ratvís lagði inn leyfi sitt í nóvember 1996 eftir að ráðuneytið hafði haft töluverð afskipti af starfsemi hennar. Engir farþegar voru erlendis á hennar vegum. Ráðuneytið auglýsti eftir kröfum í tryggingarfé ferðaskrifstofunnar 19. desember 1996 og bárust örfáar kröfur vegna innborgana á ferðir. Málinu lauk með því að allar lögvarðar kröfur voru greiddar.

Ferðaskrifstofan GCI lagði inn leyfi sitt í febrúar 1997. Tryggingarfé ferðaskrifstofunnar var 1 millj. kr. Þessi ferðaskrifstofa hafði ekki með höndum farseðlaútgáfu heldur einvörðungu sölu svokallaðrar orlofshlutdeildar í hótelum erlendis. Hún sá því aðeins um miðlun gistirýmis. Ráðuneytið auglýsti eftir kröfum í tryggingarféð og bárust nokkrar kröfulýsingar. Málinu lauk með því að allar lögvarðar kröfur voru greiddar.