Bæklingur ríkisstjórnarinnar um hálendi Íslands

Miðvikudaginn 17. febrúar 1999, kl. 15:44:00 (3767)

1999-02-17 15:44:00# 123. lþ. 68.91 fundur 270#B bæklingur ríkisstjórnarinnar um hálendi Íslands# (umræður utan dagskrár), Flm. HG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 123. lþ.

[15:44]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Um síðustu mánaðamót, rétt áður en þing var kvatt saman þann 2. febrúar, barst mér með Morgunblaðinu bæklingur ríkisstjórnarinnar um hálendi Íslands. Þetta var vel auglýst rit því ekki færri en fjórir vel til hafðir ráðherrar fylgdu því úr hlaði í sjónvarpskynningu 21. janúar sl. Hefur sjaldan verið haft meira við um útgáfu 15 blaðsíðna ritlings en rúmur helmingur hans eru myndir.

Tilgreindur útgefandi er enginn annar en ríkisstjórn Íslands og umsjón með útgáfunni önnuðust forsrn., félmrn., iðn.- og viðskrn. og umhvrn. Komu um tvær síður ritaðs máls í hlut hvers ráðuneytis auk myndskreytinga.

Undirritaður beið spenntur eftir þessari sendingu frá ríkisstjórninni en því er ekki að neita að afurðin olli mér nokkrum vonbrigðum. Óskaði ég að lestri loknum eftir því við forseta þingsins að kostur gæfist að ræða við útgefanda um innihaldið við hentugleika, en forsrh. og fleiri úr hópi útgefenda voru þá allfjarri við gegningar erlendis.

Áður en lengra er haldið skal tekið fram að ég tel góðra gjalda vert að reynt sé að kynna almenningi stefnu og gerðir stjórnvalda í máli og jafnvel myndum, ekki síst þegar í hlut á hálendi Íslands, fjársjóður þjóðarinnar, eins og lesa má sem heiti á forsíðu bæklingsins. Því verður hins vegar ekki neitað að ég varð fyrir verulegum vonbrigðum með innihald þessarar skrautútgáfu og skal nú tíundað það helsta sem ég tel athugavert við ritið.

Hvergi í ritinu er reynt að afmarka hugtakið hálendi og er það notað sitt á hvað um svonefnt miðhálendi og óbyggðir. Vestfjarðahálendi, Tröllaskagi og fleiri slík fjalllendi virðast falla utan við hálendishugtak ríkisstjórnarinnar. Í stað þess að vera skilmerkilegt fræðslurit um þá löggjöf sem nú gildir um óbyggðir höfum við fengið í hendur yfirborðslegan hrærigraut þar sem saman ægir hástemmdum náttúrufarslýsingum, lagatilvísunum, skírskotunum um ákvarðanir sem þegar hafa verið teknar og aðrar sem eru hálfkaraðar eða enn þá hugarfóstur útgefendanna. Útkoman verður moðsuða sem skilur lesandann eftir snarringlaðan í stað þess að vera skilmerkilegur leiðarvísir um það hvernig löggjafar- og framkvæmdarvald hefur búið að þessum fjársjóði þjóðarinnar og hvað enn skortir til að leikreglur séu skýrar. Það má tilfæra mörg dæmi. Ég gríp hér nokkur. Í upphafi segir, með leyfi forseta:

,,Miðhálendi Íslands er fágæt náttúruauðlind. Sífellt færist í vöxt að ferðamenn, innlendir og erlendir, njóti hálendisins á ferðalögum og uni sér fjarri mannvirkjum í námunda við tignarleg náttúruöfl. Að sama skapi býr í óbyggðum Íslands önnur auðlegð sem miklu skiptir að nýtt sé af skynsemi og gát til atvinnuköpunar og hagsældar fyrir þjóðina alla.``

Þetta gæti sem best verið tekið upp úr landkynningarriti: ,,... fjarri mannvirkjum í námunda við tignarleg náttúruöfl ...`` Þetta hljómar vel og er sennilega runnið úr penna hæstv. forsrh. Eftir að hafa talið upp þrenn nýsett lög segir m.a., með leyfi forseta:

,,Auk þess hafa stjórnvöld með ýmsum hætti unnið að öðrum þáttum stefnumörkunar á svæðinu.`` --- Óljóst er hvaða svæði er átt við. --- ,,Þannig hefur síðastliðin fimm ár verið unnið að mótun nýs svæðisskipulags fyrir miðhálendið.`` --- Þetta svæðisskipulag er enn ófrágengið. --- ,,Einnig hefur verið unnið að mótun nýrra náttúruverndarlaga`` --- þetta frv. til nýrra náttúruverndarlaga kom á borð þingmanna í upphafi þessa fundar, virðulegur forseti --- ,,og laga um mat á umhverfisáhrifum ...`` --- en þau eru enn í hirslum hæstv. umhvrh.

Vikið er og að nýrri stefnu við nýtingu auðlinda til raforkuvinnslu sem enn er í hugarfylgsnum hæstv. iðnrh., ef þau eru þá þar. Ég ímynda mér þó að þangað sé vísað. Þetta er að finna á bls. 3 í bæklingnum. Á bls. 5 er talað um lokafrágang skipulagstillögu um miðhálendið og með því gefið í skyn að hún sé í höfn, en mér sýnist að það sé óvissa um að hún komist í höfn, sú tillaga, í tíð hæstv. ríkisstjórnar.

Af nógu fleiru er að taka hér en tíminn leyfir ekki margar beinar tilvitnanir. Í síðasta kafla ritsins er vikið að hagnýtingu auðlinda og skýrum og samræmdum reglum. Þar segir m.a. að hæstv. iðnrh. hafi lagt fyrir þáltill. um stefnumótun í raforkumálum. Sú þáltill. var ekki samþykkt á Alþingi. Síðan er vísað til þess að verið sé að vinna í iðnrn. að lögum sem byggja á þessari tillögu, rétt eins og ráðuneytin setji lög.

Virðulegur forseti. Eins og fram hefur komið í máli mínu er margt við þennan litla bækling að athuga. Ég hef aðeins getað tilfært örfá dæmi. Því miður hefur þessi bæklingur ríkisstjórnarinnar fremur á sér yfirbragð áróðursrits en upplýsinga. Með því skal ekki fullyrt að sá hafi verið ásetningur útgefenda. Með því að ræða þetta mál utan dagskrár vildi ég undirstrika þörfina á að vanda til rita af þessu tagi. Hálendi Íslands, virðulegur forseti, er sannarlega fjársjóður þjóðarinnar og þannig ber að meðhöndla það. Því miður er þetta fjöregg enn í tröllahöndum og brýn nauðsyn að eigandinn, þjóðin, komi því í umsjá hollvætta sem með kunna að fara.