Bæklingur ríkisstjórnarinnar um hálendi Íslands

Miðvikudaginn 17. febrúar 1999, kl. 15:49:44 (3768)

1999-02-17 15:49:44# 123. lþ. 68.91 fundur 270#B bæklingur ríkisstjórnarinnar um hálendi Íslands# (umræður utan dagskrár), forsrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 123. lþ.

[15:49]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Ég vil í upphafi þakka hv. málshefjanda fyrir að nefna það sérstaklega að við ráðherrarnir fjórir hefðum verið vel til hafðir á þessum blaðamannafundi. Þetta er dýrmæt yfirlýsing, ekki síst úr munni valinkunns snyrtimennis eins og hv. þm. er. Það var nú eiginlega eina hrósið sem við ráðherrarnir fengum, þ.e. fyrir ytri umbúnað okkar á þessum ágæta blaðamannafundi út af bæklingnum.

Þannig er með bæklingagerð eins og þessa að vandratað er meðalhófið. Það var skýrt frá því við umræður um þau þrenn lög eða fern sem þarna komu mest við sögu og mikil umræða varð um, að til stæði af hálfu ríkisstjórnarinnar að reyna að kynna þau fyrir almenningi með einhverjum þeim hætti sem skýr mætti vera. Við þær fyrirætlanir voru engar athugasemdir gerðar úr þessum ræðustóli.

Auðvitað hefðu jafnumfangsmikil frv. og þarna voru á ferðinni þurft að fá mjög ítarlega kynningu, stóra og fyrirferðarmikla bæklinga. Slíka bæklinga sendir maður ekki inn á hvert heimili. Við vitum hver örlög slíkra bæklinga yrði. Það er ekki um mikinn lestur á slíku efni að ræða. Þess vegna fannst mönnum þýðingarmeira að gera ráð fyrir þeim meginsjónarmiðum og meginatriðum sem þau lög sem þarna voru nýsett leiddu til, hver væru réttaráhrif þeirra laga, úr hvaða óvissu væri skorið miðað við það sem áður var. Ég verð ekki var við annað en að þeir mörgu aðilar sem hafa fengið þennan bækling telji sig vera betur settari með hann en án hans. En ég vil ekkert fullyrða eða halda því fram að bæklingur þessi leysi úr öllum vanda. Það gerir hann ekki, en hann dregur ákveðnar markalínur og hann dregur úr misskilningi sem var verulegur við meðferð málsins, misskilningi sem laut að því til að mynda hvort verið væri að færa tilteknum aðilum óeðlilegan rétt o.s.frv., hvort verið væri að skipta landinu upp í ræmur sem gerðu það að verkum að ómögulegt væri að ná fram heildstæðu eðlilegu skipulagi á hálendi Íslands o.s.frv. Ég tel að sú löggjöf öll hafi þvert á móti skýrt alla þá þætti og sérstaklega aukið möguleika almennings á að ná rétti sínum og vita hver réttur almennings er. Áður var þetta allt í mikilli lagaóvissu eins og dómstólar höfðu reyndar vakið athygli á og eins og skipulagsyfirvöld höfðu vakið athygli á.

Að því er fundið af hv. þm. að einnig skuli hafa verið nefnd til sögunnar ekki bara sú löggjöf sem þegar hafði verið afgreidd af hálfu þingsins heldur ýmsar fyrirætlanir ríkisstjórnar um áframhaldandi löggjöf. Það þótti hins vegar nauðsynlegt við kynningu og gerð bæklings af þessu tagi að ekki yrði settur punktur eftir þá löggjöf sem þarna væri á ferðinni því að það var vitað að önnur löggjöf þurfti til að koma. Þegar hafði verið tilkynnt af hálfu umhvrh. um einn tiltekinn þátt er snerti skipulag miðhálendisins sem yrði leystur á sérstakan hátt og yrði kynntur. Alþingi hefur ekki afgreitt það mál. Við gerðum ráð fyrir að lög um náttúruvernd mundu verða fyrr á ferðinni en engu að síður þótti rétt að kynna að slík löggjöf væri í farvatninu. Hún hefur núna séð dagsins ljós. Það er alveg rétt að lög um mat á umhverfisáhrifum hefur verið í vinnslu í ríkisstjórninni og ég vænti þess að ríkisstjórnin afgreiði það mál á allra næstu dögum þannig að það megi ganga til þingsins. En það þótti óeðlilegt að kynna þá löggjöf sem þegar hafði orðið og ekki víkja einu orði að því sem væntanlegt væri í framtíðinni. Ég tel að það hafi verið gott til að fylla út í þessa mynd.

Þau viðbrögð sem við höfum fengið frá almenningi vegna bæklingsins --- þó að þessi afurð eins og hv. þm. kaus að nefna það hafi valdið hv. þm. vonbrigðum, þá verðum við vör við að almenningur hefur tekið bæklingi þessum fegins hendi og telur sig vera mun nær en ella eftir útgáfu hans.