Bæklingur ríkisstjórnarinnar um hálendi Íslands

Miðvikudaginn 17. febrúar 1999, kl. 15:56:43 (3770)

1999-02-17 15:56:43# 123. lþ. 68.91 fundur 270#B bæklingur ríkisstjórnarinnar um hálendi Íslands# (umræður utan dagskrár), ÁE
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 123. lþ.

[15:56]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Bæklingur ríkisstjórnarinnar er kosningaplagg af billegu tagi. Ríkisstjórnin hefur með löggjöf skipt miðhálendinu upp milli fjölmargra smærri sveitarfélaga og skipulagsmál eru þar í uppnámi.

Ég vil í þessari umræðu vekja athygli á svari hæstv. umhvrh. við fyrirspurn minni um svæðisskipulag fyrir miðhálendið. Þar kemur m.a. fram að kostnaður við skipulagsvinnuna er miklu meiri en upphaflegt útboð sagði til um og munar þar mörgum milljónum.

Í svari ráðherrans komu einnig fram markmið í útboðslýsingu en í skipulagstillögunni, sem nú liggur fyrir, er langt í frá að fylgt hafi verið faglegum vinnubrögðum við skipulagsvinnuna. Þetta er, herra forseti, mat fjölmargra sérfræðinga, m.a. stutt af þeim mörgu athugasemdum sem hafa borist við skipulagstillöguna. Það er ekki fjallað um neitt af þessu í bæklingi ríkisstjórnarinnar.

Miðhálendið og miðhálendismálin eru í uppnámi og þessi skrautbæklingur stjórnarinnar breytir engu þar um.

Herra forseti. Það þarf nýja stefnu gagnvart miðhálendinu, stefnu sem markast af þremur atriðum. Í fyrsta lagi þarf að afnema lagaákvæði ríkisstjórnarinnar um skipulag á miðhálendinu frá síðasta ári. Í öðru lagi að gera miðhálendið að einu stjórnsýslusvæði, þ.e. sérstöku sveitarfélagi með skipulagsskyldum. Í þriðja lagi að afgreiða stefnumörkun á Alþingi um samræmda skipulagsstefnu á miðhálendinu.