Bæklingur ríkisstjórnarinnar um hálendi Íslands

Miðvikudaginn 17. febrúar 1999, kl. 15:58:50 (3771)

1999-02-17 15:58:50# 123. lþ. 68.91 fundur 270#B bæklingur ríkisstjórnarinnar um hálendi Íslands# (umræður utan dagskrár), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 123. lþ.

[15:58]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni fyrir að hefja þessa umræðu. Ég vil fyrst nefna að ég er því fylgjandi að gefin séu út upplýsingarit almenningi til upplýsingar, en í inngangsorðum þessa bæklings segir að hann sé fyrst og fremst hugsaður almenningi til glöggvunar á nýrri skipan í málefnum hálendisins sem nú kemur til framkvæmda. Vísað er í nokkra lagabálka, lög um þjóðlendur, sveitarstjórnarlög og lög um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu.

Um lagabálkinn um þjóðlendur urðu ekki miklar deilur en öðru máli gegnir um hina lagabálkana tvo. Um sveitarstjórnarlögin segir hér að ,,kveðið sé skýrt á um lögsögu og skyldur sveitarstjórna í málum hálendisins``. Staðreyndin er önnur. Þegar sveitarstjórnarlögin voru lögfest sl. vor var mjög óljóst einmitt það hvernig háttað skyldi skipulagsvinnu á miðhálendinu. Á því átti að taka í skipulags- og byggingarlögum og lagabreytingar liggja nú fyrir þinginu. Um er að ræða margvísleg álitaefni sem ekki hefur fengist botn í. Um þetta er ekkert að finna í þessum bæklingi.

Varðandi þriðja lagafrv., lögin um hagnýtingu auðlinda, skal á það minnt að um það frv. urðu miklar deilur á Alþingi, enda var verið að færa landeigendum eignarhald á auðlindum þjóðarinnar alveg inn að miðju jarðar, þar með talið heitu vatni. Almannahagsmunir voru hins vegar algerlega fyrir borð bornir. Um þetta er fjallað undir öfugmælafyrirsögninni ,,Nýting í almannaþágu``.

Hér segir einnig að þessi lög stuðli að umhverfisvernd. Þetta eru einnig öfugmæli. Ég vil, hæstv. forseti, ítreka að mér finnst sjálfsagt að gefnir séu út upplýsingabæklingar á vegum ríkisvaldsins en þeir þurfa að byggja á sannindum, ekki ósannindum eins og þessi bæklingur gerir.