Fjöldi erlendra ferðamanna

Miðvikudaginn 17. febrúar 1999, kl. 18:03:13 (3779)

1999-02-17 18:03:13# 123. lþ. 68.11 fundur 453. mál: #A fjöldi erlendra ferðamanna# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 123. lþ.

[18:03]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Fsp. af þessu tagi þar sem spurt er um ítarlegar talnalegar upplýsingar hefði e.t.v. verið rétt að hafa skriflega en ég skal reyna að svara eftir bestu getu. Fyrst er spurt hversu margir erlendir ferðamenn hafi komið til landsins á hverju ári síðustu 20 ár.

Árið 1978 voru þeir 75.700. Tíu árum síðar eða 1988, 128.830 og á liðnu ári 232.219. Ég hef, herra forseti, afhent hv. þm. ítarlegra talnaefni en vona að þetta verði látið duga í munnlegu svari.

Síðan er spurt hve margir komu með flugi. Á árinu 1978 voru þeir 72.670, á árinu 1988 123.658 og á síðastliðnu ári 226.825.

Með skemmtiferðarskipum á síðustu 20 árum komu 10.468 1978, 9.127 árið 1988 og á síðastliðnu ári 22.734.

Um áningarfarþega er þetta að segja:

Nokkuð er á reiki hvað átt er við með orðinu áningarfarþegar en oftast er átt við farþega sem hefur stutta viðdvöl á staðnum án þess að fara í gegnum vegabréfaskoðun. Á undanförnum árum hefur verið nokkuð um farþega sem dveljast hluta úr degi og hafa þeir verið á bilinu 4--8 þús. árlega og eru þeir ekki taldir með í tölum um fjölda erlendra ferðamanna þar sem þeir gista ekki í landinu.

Um farþega með skemmtiferðarskipum er þetta að segja:

Þeir sem komu með skemmtiferðarskipum teljast viðdvalarfarþegar og því ekki taldir með í heildarfjölda ferðamanna heldur alltaf sérstaklega.

Spurt er hvernig þessir ferðamenn skiptast milli landsfjórðunga. Ekki eru til neinar upplýsingar um hvernig fjöldinn dreifist í einstaka landshluta. Frá árinu 1985 eru til gistináttatölur sem sýna gistinætur í hverjum landshluta en ljóst er að dreifing ferðamanna getur verið með öðrum hætti en sú talning sýnir. T.d. kemur fjöldi erlendra gesta á Suðurland þótt þeir gisti á höfuðborgarsvæðinu. Hagstofa Íslands hefur samkvæmt lögum það hlutverk að annast gistináttatalningu og hefur hún gefið út árlega gistináttatalningu með töflum sem sýna gistingu erlendra ferðamanna í hverjum landshluta.

Hver er árleg heildarvelta vegna komu erlendra ferðamanna á sama tímabili? Ég hef afhent þingmanninum töflu sem eru upplýsingar frá Seðlabanka Íslands og er þar um að ræða samtölur ferða- og dvalarkostnaðar erlendra ferðmanna á Íslandi annars vegar og fargjaldatekjur íslenskra flugfélaga frá erlendum farþegum til landsins hins vegar. Heildarvelta á verðgildi hvers árs í milljónum kr. var 104 millj. 1978, 7 milljarðar 370 millj. 1988 og 26 milljarðar 292 millj. á árinu 1998.