Framboð gistirýma

Miðvikudaginn 17. febrúar 1999, kl. 18:10:01 (3781)

1999-02-17 18:10:01# 123. lþ. 68.12 fundur 454. mál: #A framboð gistirýma# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 123. lþ.

[18:10]

Fyrirspyrjandi (Ísólfur Gylfi Pálmason):

Herra forseti. Seinni fyrirspurn minni beini ég einnig til hæstv. samgrh. Í þáltill. minni um aukna landkynningu í ferðaþjónustu í dreifbýli er gert ráð fyrir sérstakri framkvæmdaáætlun um eflingu atvinnugreinarinnar enda skiptir ferðaþjónusta landsbyggðina ekki síður mjög miklu máli en þéttbýlið. Afþreying í ferðamennsku er afar mikilvæg, hún þarf að vera fjölbreytt og það er ánægjulegt að fylgjast með því á hvern hátt afþreying í ferðamennsku hefur aukist á síðustu missirum. Fjölbreytni safna á Íslandi er að verða talsvert mikil og núna um helgina varð ég þeirrar gleði aðnjótandi að vera viðstaddur opnun verslunarsafns í Rangárvallasýslu þar sem Kaupfélag Rangæinga, eða starfsmannafélag Kaupfélags Rangæinga var að opna mjög merkilegt sögusafn um þróun verslunarmála í Rangárvallasýslu. Þetta safn er í húsi þar sem stendur yfir sýning á Njálssögu einnig, sem er í eigu Sögusetursins á Hvolsvelli. Aðstaða ferðamanna er mjög mikilvæg og það skiptir miklu máli að aðstaðan sé góð og í raun og veru sem fjölbreytilegust þannig að skapa megi sem mestar tekjur í sambandi við ferðamennsku.

Fyrirspurn mín til hæstv. samgrh. er eftirfarandi:

,,1. Hver hefur verið árleg þróun á framboði gistirýma á Íslandi milli ára síðustu tuttugu ár?

2. Hvernig skiptist fjöldi gistirýma milli landshluta á þessu tímabili?``