Egilsstaðaflugvöllur sem varaflugvöllur í millilandaflugi

Miðvikudaginn 17. febrúar 1999, kl. 18:31:56 (3789)

1999-02-17 18:31:56# 123. lþ. 68.13 fundur 468. mál: #A Egilsstaðaflugvöllur sem varaflugvöllur í millilandaflugi# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 123. lþ.

[18:31]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Það hefur ekki komið upp á mitt borð kvörtun um að veðurupplýsingar séu ónógar fyrir millilandaflugvélar. Flugleiðir hafa ekki vakið máls á því. Ég hygg því að svo sé ekki, hef ástæðu til að ætla það.

Ég vil jafnframt segja að með því að gistirýmum hefur fjölgað á Egilsstöðum og Hallormsstað þá hefur það að sjálfsögðu treyst stöðu Egilsstaðaflugvallar sem varaflugvallar.

Að síðustu vil ég skýra frá því að verið er að gera úttekt á snjómoksturstækjum og tækjabúnaði Flugmálastjórnar og það verður tekið upp við flugmálastjóra og vegamálastjóra hvort ástæða sé til frekari samvinnu á þessu sviði og þá jafnvel hvort hagkvæmt þyki að tækjasjóður Vegagerðarinnar taki tækjabúnað Flugmálastjórnar yfir og Flugmálastjórn greiði síðan fyrir tækin í samræmi við notkun og eins og gert er hjá Vegagerðinni. Ég álít að það væri mjög til bóta að taka þann hátt upp, það muni hraða endurnýjun á nauðsynlegum tækjabúnaði á hinum ýmsu flugvöllum úti á landi, en snjóruðningstæki eru satt að segja orðin mjög gömul og aldur þeirra talinn í áratugum oftast nær, ég segi nú ekki öldum.