Slys á Reykjanesbraut

Miðvikudaginn 17. febrúar 1999, kl. 18:34:10 (3790)

1999-02-17 18:34:10# 123. lþ. 68.14 fundur 469. mál: #A slys á Reykjanesbraut# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi KPál
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 123. lþ.

[18:34]

Fyrirspyrjandi (Kristján Pálsson):

Herra forseti. Með lýsingu Reykjanesbrautar var stigið stórt skref í bættu umferðaröryggi á Reykjanesbraut. Slys á brautinni eru þó því miður of tíð eins og tölur vegaeftirlitsins sýna og verður stöðugt að vera að minna á bætt öryggi á þessari leið sem annars staðar.

Hvað varðar slysatíðni eina árið sem ég hef til viðmiðunar eftir lýsingu, þ.e. árið 1997, miðað við fimm árin þar á undan, þá hefur slysum fækkað á Reykjanesbraut um 13. Það má segja að sé verulegur árangur. Þetta lofar því mjög góðu þó ekki sé hægt að draga neina alhlíta ályktun eftir svo stutta reynslu af ljósunum. Við sem keyrum þessa leið daglega finnum þó hvílíkur munur er til batnaðar að aka þessa leið eftir að ljósin voru sett upp og er ég sannfærður um að lýsingin hefur komið í veg fyrir fjölda slysa.

Uppsetning þeirra kostaði um 200 millj. kr. og reksturinn er um 6 millj. árlega. Mörgum hefur fundist þetta dýr fjárfesting en þegar litið er til samfélagslegs kostnaðar af hverju slysi sem Hagfræðistofnun hefur reiknað út þá má áætla að kostnaður vegna slysa á Reykjanesbrautinni árin 1992--1996 nemi á bilinu 300--400 millj. kr. árlega, þ.e. um einn og hálfur til tveir milljarðar þetta fimm ára tímabil. Því er ljóst, herra forseti, að uppsetning ljósanna hefur þegar borgað sig ef litið er til samfélagskostnaðar vegna slysa á þessari braut.

Þó að slysum hafi fækkað á Reykjanesbrautinni er ljóst að þau eru allt of mörg og oft mjög alvarleg vegna framúraksturs því þá er hætta á árekstrum. Dæmin sanna að slíkir árekstrar valda oft mjög alvarlegum slysum. Alvarleiki þeirra er vegna þess að umferðarhraðinn er svo mikill sem raun ber vitni og umferðin mjög þung eða um sex þúsund bílar á sólarhring að meðaltali allt árið. Það er mesti umferðarþungi á þjóðvegi utan höfuðborgarsvæðisins. Til samanburðar er umferðin um Vesturlandsveg helmingurinn af þessari umferð og þrír fjórðu á Suðurlandsvegi yfir Hellisheiði.

Af þessum ástæðum er tvöföldun Reykjanesbrautarinnar komin inn á langtímaáætlun og á að ljúka samkvæmt henni eigi síðar en árið 2010. Að mínu áliti verður að flýta þeirri dagsetningu og ljúka verkinu eftir fjögur til fimm ár eða eins fljótt og tæknilega er mögulegt. Undirbúningur fyrir stórframkvæmd eins og lagningu Reykjanesbrautar tekur einhvern tíma með umhverfismati og rannsóknum. Samkvæmt áætlun er til fjármagn til þeirra hluta.

Ég hef því lagt fyrir hæstv. samgrh. spurningar á þskj. 774 sem hljóða svo, með leyfi forseta:

,,1. Hve mörg slys urðu á Reykjanesbraut sl. tvö ár samanborið við næstu fjögur ár þar á undan?

2. Er sýnileg breyting á slysatíðni vegna lýsingar brautarinnar?

3. Er hafinn undirbúningur að aðgerðum til að fækka slysum á Reykjanesbraut, svo sem tvöföldun hennar?``