Slys á Reykjanesbraut

Miðvikudaginn 17. febrúar 1999, kl. 18:42:26 (3792)

1999-02-17 18:42:26# 123. lþ. 68.14 fundur 469. mál: #A slys á Reykjanesbraut# fsp. (til munnl.) frá samgrh., KF
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 123. lþ.

[18:42]

Katrín Fjeldsted:

Herra forseti. Þetta er mjög áhugaverð umræða um slys á Reykjanesbraut. Ég er flm. að þessari fyrirspurn með Kristjáni Pálssyni. Áður en ráðherrann kemur og svarar öðru sinni, og þá þriðju spurningunni, langar mig að nefna sértækar aðgerðir á þessari hættulegu braut. Þó að slysin séu þar undir landsmeðaltali þá eru þau þó á nokkuð takmörkuðum kafla. Og eins og unnið hefur verið að umferðarmálum í Reykjavík þá hafa verið skilgreindir svartir blettir þar sem sérstaklega safnast saman þau óhöpp sem menn skrá.

En ég vil spyrja ráðherrann hvort til greina komi, á þeim tíma þar til varanleg ný Reykjanesbraut kemur, að menn grípi til sértækra aðgerða. Ég er að hugsa um hluti eins og að hægja á umferð, eins og að tvöfalda til bráðabirgða á verstu stöðunum eða jafnvel að setja upp vegrið, breikka og setja upp vegrið á þeim köflum sem sérfræðingar telja versta.