Slys á Reykjanesbraut

Miðvikudaginn 17. febrúar 1999, kl. 18:43:41 (3793)

1999-02-17 18:43:41# 123. lþ. 68.14 fundur 469. mál: #A slys á Reykjanesbraut# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi KPál
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 123. lþ.

[18:43]

Fyrirspyrjandi (Kristján Pálsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. samgrh. fyrir þessar upplýsingar. Ég fagna því að sjálfsögðu mjög að bráðabirgðatölur fyrir árið 1998 sýna að slysum fækkar. Stærsta aðgerð í umferðaröryggismálum á þessu svæði er lýsingin þannig að auðvitað hlýtur maður að reyna að draga ályktun af því. Ég veit að sjálfsögðu um fleira sem hefur verið gert á þessu tímabili, t.d. hvað varðar vatnshalla. Það held ég að hafi verið mikilvæg aðgerð og eins er með breikkun axla.

Aðrir þættir í umferðaröryggismálum hafa ekki verið mjög sýnilegir að öðru leyti en því að maður sér núna hvaða hitastig er á Stapanum og hvaða hitastig er rétt sunnan Straumsvíkur. Það skiptir kannski ekki öllu máli en er ósköp þægilegt að vita.

Ég held að það sé engin spurning að Reykjanesbrautin, eina samgönguæðin til aðalflugvallar landsmanna, verður að vera örugg. Allir sem koma til þessa lands eða frá því þurfa að keyra þessa leið. Öryggi hennar skiptir öllu máli. Fyrir utan það er þarna einhver allra mesta umferð utan höfuðborgarsvæðisins og hún fer vaxandi, hefur aukist um 7% á ári síðustu ár og ekkert útlit er fyrir að það muni breytast. Ég ítreka því þá skoðun mína að tvöföldun Reykjanesbrautarinnar er mjög brýnt verkefni sem þarf að flýta.