Slys á Reykjanesbraut

Miðvikudaginn 17. febrúar 1999, kl. 18:46:10 (3794)

1999-02-17 18:46:10# 123. lþ. 68.14 fundur 469. mál: #A slys á Reykjanesbraut# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 123. lþ.

[18:46]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Spurt var: Er hafinn undirbúningur að aðgerðum til að fækka slysum á Reykjanesbraut, svo sem tvöföldun hennar?

Á langtímaáætlun sem samþykkt var á Alþingi í fyrravor er gert ráð fyrir umtalsverðu fjármagni til að breikka Reykjanesbraut og byggja gatnamótamannvirki í þeim tilgangi að auka umferðaröryggi. Langtímaáætlun nær yfir 12 ár, 1999--2010, og er Reykjanesbraut skipt þar í tvo hluta, annars vegar innan höfuðborgarsvæðis og hins vegar sunnan Krísuvíkurvegar.

Á höfuðborgarsvæðinu eru fjárveitingar mestar á fyrri hluta áætlunartímabilsins, alls rúmlega 4,2 milljarðar kr. Kaflinn Krísuvíkurvegur--Keflavík fær mesta framlagið á seinni hluta tímabilsins, eða alls nær 2,5 milljarða kr. Reykjanesbraut fær þannig í heild rúmlega 6,7 milljarða kr. á næstu 12 árum og er við það miðað að ljúka við breikkun á Reykjanesbraut á milli Breiðholts í Reykjavík og Keflavíkur ásamt tilheyrandi gatnamótamannvirkjum.

Eins og fram kom í svörum mínum áðan hefur slysatíðnin með meiðslum verið meiri á Reykjanesbraut frá Breiðholtsbraut að Krísuvíkurvegi en sunnan Krísuvíkurvegar. Eftir sem áður er nokkurt svigrúm til þess á næsta áætlunartímabili að ráðast í einhverjar lagfæringar á Reykjanesbraut sunnan Hafnarfjarðar og auðvitað á öðru tímabili en ákvarðanir um það eru teknar af þingmönnum. Á hinn bóginn tekur dómsmrh. ákvörðun um það hvort ástæða sé til að hægja á umferð á tilteknum svæðum og mér er ekki kunnugt um að sú hugmynd hafi komið upp.