Jöfnun á aðstöðu til náms

Miðvikudaginn 17. febrúar 1999, kl. 18:54:30 (3797)

1999-02-17 18:54:30# 123. lþ. 68.15 fundur 275. mál: #A jöfnun á aðstöðu til náms# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 123. lþ.

[18:54]

Fyrirspyrjandi (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Ég vil þakka ráðherra fyrir þau svör sem þegar hafa komið fram. Hann gat um fjarkennslu og hið mikilvæga hlutverk sem hún getur gegnt í því að jafna aðstöðu til náms. Ég vil spyrja í framhaldi af því hvort markviss vinna sé í gangi varðandi það viðamikla verkefni. Ég sé það fyrir mér, herra forseti, að á ýmsum stöðum úti um land væri hægt að fresta því að nemendur færu að heiman jafnungir og raun ber vitni með því að kennari tæki að sér verkstjórn og kennsla færi að mestu leyti fram með fjarkennslu. Ég held það væri a.m.k. áhugavert að setja slíkt tilraunaverkefni í gang því ég er viss um að þannig væri hægt að breyta aðstæðum mjög víða um landið vegna þess að það er auðvitað ekki vansalaust að unglingar skuli þurfa að fara að heiman og jafnvel vera á eigin vegum, 15--16 ára gamlir. Þess vegna er spurningin um heimavistarrýmið líka svo mikilvæg.

Ég tek eftir því að heimavistarrými framhaldsskólanna virðist að meðaltali vera nægjanlegt, en sums staðar vantar. Hæstv. ráðherra gat um nemendaíbúðir og það væri líka fróðlegt að heyra aðeins meira um þær hugmyndir sem fram hafa komið um hvað sé verið að vinna varðandi aukningu á nemendaíbúðum eða húsrými sem sérstaklega er ætlað nemendum og þá til að mæta þeirri þörf sem sannarlega er fyrir hendi sums staðar á landinu.