Jöfnun á aðstöðu til náms

Miðvikudaginn 17. febrúar 1999, kl. 18:56:12 (3798)

1999-02-17 18:56:12# 123. lþ. 68.15 fundur 275. mál: #A jöfnun á aðstöðu til náms# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 123. lþ.

[18:56]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Hvað varðar fjarkennsluna þá hefur stórátak verið gert á því sviði eins og ég gat um og m.a. er til athugunar í menntmrn. að stofna til tilraunastarfsemi á annan hátt en gert hefur verið til þessa. Ráðuneytið boðar til ráðstefnu í næstu viku um upplýsingatækni og skólastarf og þar verður fjallað um alla þessa þætti. Menn munu koma og skiptast á skoðunum og eftir þá ráðstefnu tel ég að það muni liggja ljósar fyrir hvaða tækifæri við höfum á þessu sviði en þróunin er mjög ör og ráðuneytið hefur beitt sér ötullega fyrir því að menn nýti þessa tækni í þágu skólastarfsins.

Að því er varðar heimavistarrýmið þá er fjármögnun á því mismunandi eftir því hvaða skólar eiga í hlut og því hefur verið staðið mismunandi að því að byggja upp heimavistir. Ég tel sjálfur að stefna beri að því að þessar byggingar séu ekki endilega hluti af skólakerfinu heldur þjónustubyggingar sem menn geti nýtt bæði fyrir nemendur og aðra. Á Akureyri hafa menn m.a. verið að vinna að því að stofna sjálfseignarfélag eða rekstrarfélag um heimavist sem á að þjóna báðum framhaldsskólunum þar og víða annars staðar eru menn að velta fyrir sér hvernig unnt sé að nýta og samtengja skólastarf annars vegar og uppbyggingu á slíkum íbúðum hins vegar og lánasjóðir, byggingarlánasjóðir, hljóta að koma að því að fjármagna slíkar framkvæmdir.