Fjölbreyttara nám á Vestfjörðum

Miðvikudaginn 17. febrúar 1999, kl. 18:58:16 (3799)

1999-02-17 18:58:16# 123. lþ. 68.16 fundur 276. mál: #A fjölbreyttara nám á Vestfjörðum# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 123. lþ.

[18:58]

Fyrirspyrjandi (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Þetta er í rauninni svolítil framhaldsumræða frá þeirri fyrirspurn sem nú var rétt svarað. Ljóst er að menntamálin hafa gríðarlega mikla þýðingu fyrir þróun byggðar í landinu. Eins og ég gat um áðan þá virðist, samkvæmt könnunum sem gerðar hafa verið, m.a. af rannsóknarstofnun Háskólans á Akureyri, sem um 30% þeirra sem hyggja á flutning af landsbyggðinni geri það af menntunartengdum ástæðum. Það er eðlilegt að þetta sé mönnum áhyggjuefni og að þarna þurfi að breyta og bæta stöðuna víða um landið vegna þess að í ljós kemur að 4,4% íbúa Reykjavíkur lagði stund á sérskóla- eða háskólanám haustið 1996 á meðan hlutfallið í landsbyggðarumdæmunum var aðeins 1,2 til 2%, sem sagt meira en helmingi færri.

Í dag fer næstum öll háskólamenntun fram í Reykjavík. Það eru aðeins u.þ.b. 7% háskólastúdenta sem eru við nám annars staðar, bróðurparturinn á Akureyri. Hins vegar vita menn að háskólanám og annað nám, sérnám, sem er úti á landi, er líklegra til að skila sínum nemendum til starfa á landsbyggðinni því það hefur komið í ljós að yfir 80% brautskráðra nemenda úr háskólanum á Akureyri búa og starfa á landsbyggðinni. Menn sjá því að þarna eru augljós tengsl á milli og það hefur gefið mönnum ákveðna vísbendingu um hvaða leiða ætti að leita ef menn í alvöru vilja takast á við þann vanda sem felst í hinum miklu fólksflutningum af landsbyggðinni og á höfuðborgarsvæðið vegna þess að efling framhaldsskóla og háskóla er ein skilvirkasta aðgerðin sem stjórnvöld geta greinilega gripið til gegn búferlaflutningum.

Fjarskiptin skapa nýja möguleika, samanber það hjúkrunarnám sem nú fer fram á Ísafirði en kennslan fer fram Akureyri. Þetta er mjög áhugavert verkefni og hefur gefið bæði Vestfirðingum og öðrum sem búa fjarri háskólum tilefni til að vænta þess að þeirra heimabyggð geti einhvern veginn orðið vettvangur háskólakennslu. Þess vegna spyr hv. þm. Kristín Jóh. Björnsdóttir á þskj. 314, með leyfi forseta:

,,Mun ráðherra, í ljósi fyrirheita um að háskólamenntun verði tekin upp þar sem kostur er og að menntun á landsbyggðinni verði stórefld, sérstaklega hvað varðar verklegar greinar og tölvunám, sbr. tillögu til þingsályktunar um stefnu í byggðamálum, beita sér fyrir því að slíkt nám verði í boði víðar á Vestfjörðum en nú?``