Fjölbreyttara nám á Vestfjörðum

Miðvikudaginn 17. febrúar 1999, kl. 19:06:18 (3802)

1999-02-17 19:06:18# 123. lþ. 68.16 fundur 276. mál: #A fjölbreyttara nám á Vestfjörðum# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 123. lþ.

[19:06]

Fyrirspyrjandi (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Ég er ekki viss um að beinlínis sé verið að biðja um fleiri setur á Vestfjörðum, heldur frekar hitt að sýnt sé ákveðið frumkvæði til að laða að eða benda á þá möguleika sem vissulega eru fyrir hendi. Það er alveg laukrétt sem hæstv. ráðherra segir að nám af þessu tagi getur verið fullkomlega einstaklingsbundið og undir vilja einstaklingsins komið. Það er eigi að síður þannig að þessi fjarskipti og þessir nýju möguleikar eru ekki öllum ljósir og til að þeir megi verða aðgengilegir og mönnum verði ljóst að þeir geti stundað sitt nám, sama hvar þeir eiga heima, þá þarf kannski að koma til ákveðið frumkvæði eða ákveðin hvatning af hálfu yfirvalda. Ég hygg að þessi fyrirspurn sé fyrst og fremst sett fram í því skyni að kalla eftir að stjórnvöld hvetji til og leggi sitt af mörkum til að íbúar hinna dreifðu byggða, á Vestfjörðum í þessu tilfelli, átti sig á þessum möguleikum og að þeir sjái að hægt er að nýta þá, jafnvel þótt menn búi ekki á þeim stöðum þar sem formlega hefur verið tekin upp háskólakennsla. Ég held því að hér sé fyrst og fremst á ferðinni vilji til að sýnd verði viðleitni frekar en orðið er og hvort þau fyrirheit sem felast í till. til þál. um stefnu í byggðamálum muni ekki eiga við með einhverjum hætti um fleiri staði en Ísafjörð ef við erum að tala um Vestfirði og hvort stjórnvöld, ef þau samþykkja stefnu eins og þá sem felst í þessari tillögu, muni þá ekki beita sér á einhvern hátt í málinu til að gera þessa möguleika aðgengilegri.