Fjölbreyttara nám á Vestfjörðum

Miðvikudaginn 17. febrúar 1999, kl. 19:08:36 (3803)

1999-02-17 19:08:36# 123. lþ. 68.16 fundur 276. mál: #A fjölbreyttara nám á Vestfjörðum# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 123. lþ.

[19:08]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Stefnan um fjarkennslu hefur verið mótuð og henni er fylgt eftir. Eins og ég sagði verður mikil ráðstefna í næstu viku um þessi mál, upplýsingatækni í skólastarfi. Þar verður um þetta fjallað og vakin vonandi rækileg athygli á öllum þeim kostum sem fyrir hendi eru.

Varðandi fyrirspurn frá hv. þm. Sighvati Björgvinssyni þá er mér kunnugt um það verkefni á Ströndum. Það kom m.a. fram er ég sótti Hólmavík heim á sl. hausti á 50 ára afmæli grunnskólans þar og var rætt um þetta verkefni sem menn eru að velta fyrir sér þar. Menntmrn. hefur tekið höndum saman með Sambandi íslenskra sveitarfélaga og lagt fé í tilraunastarf sem miðar að því að efla fjarkennslu á grunnskólastigi, einkum á þessu svæði landsins. Ráðuneytið hefur því þegar komið að þessu og þótt verkaskiptingin á milli ríkis og sveitarfélaga sé skýr og sveitarfélögin beri ábyrgð á grunnskólanum þá ákváðum við að leggja fé í þetta verkefni af því við litum á það sem tilraunaverkefni. Hv. þm. nálgaðist það frá einu sjónarhorni. Af hálfu menntmrn. var ákvörðunin tekin vegna þess að við töldum mikilvægt að þessi tilraun yrði gerð um kennslu með tölvum í dreifbýli á grunnskólastigi.