Túlkun stjórnmálaumræðna í Ríkisútvarpinu fyrir heyrnarlausa

Miðvikudaginn 17. febrúar 1999, kl. 19:18:14 (3807)

1999-02-17 19:18:14# 123. lþ. 68.17 fundur 459. mál: #A túlkun stjórnmálaumræðna í Ríkisútvarpinu fyrir heyrnarlausa# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 123. lþ.

[19:18]

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og er sammála því að auðvitað fagna ég þeirri viðleitni Ríkisútvarpsins að koma til móts við þarfir þessara hópa. Þetta er í rauninni í fyrsta skipti sem það gerist því að þetta hefur verið ósk frá Félagi heyrnarlausra í hvert skipti sem kosningar eru fram undan.

Ég veit að hægt er að texta jafnóðum. Það hefur verið gert á ráðstefnum og það hefur verið gert oft og það geta sérfræðingar í textun vel gert. Þess vegna nefndi ég það í máli mínu áðan að ég er sannfærð um að sú leið sem sjónvarpið er að benda á er dýrari fyrir stofnunina, ég er alveg sannfærð um það. Fyrir utan að það eru réttindi þeirra að fá að fylgjast með þessum umræðum um leið og aðrir Íslendingar sem fylgjast með stjórnmálaumræðum en ekki við hæfi að bjóða þessu fólki, jafnvel öldruðum, upp á stjórnmálaumræðurnar seint á dagskránni, jafnvel eftir miðnætti eða eldsnemma að morgni kjördags.

En ég ætla ekki að tala hér fyrir Félag heyrnarlausra heldur er ég aðeins að spyrjast fyrir um réttindi þessara hópa. Ég veit að það hefur verið krafa frá þeim að þeir fái og öðlist sömu réttindi og vilji ekki láta líta á sig sem annars flokks þjóðfélagsþegna. Ég veit að það er yfirvofandi stefna vegna þessa misréttis sem þeir telja sig búa við.

En engu að síður spyr ég hæstv. ráðherra hvort hann muni beita sér fyrir því að þessir hópar geti fengið þessa þjónustu Ríkisútvarpsins á sama tíma og aðrir, ef það kemur í ljós að það er ekki dýrara, jafnvel ódýrara, og í ljósi þess að þetta eru ákveðin mannréttindi þessara hópa.