Utanhússviðgerðir á Sjómannaskólahúsinu í Reykjavík

Miðvikudaginn 17. febrúar 1999, kl. 19:20:52 (3809)

1999-02-17 19:20:52# 123. lþ. 68.18 fundur 517. mál: #A utanhússviðgerðir á Sjómannaskólahúsinu í Reykjavík# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi GHall
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 123. lþ.

[19:20]

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Hallvarðsson):

Herra forseti. Í yfir 50 ár hefur kennsla farið fram í Sjómannaskólahúsinu við Rauðarárholt. Það hefur verið svo með viðhald þess húss eins og kannski margra annarra húseigna eða fasteigna ríkisins að nokkur vanhöld hafa þar verið á að húsnæðinu væri vel við haldið. Hins vegar veit ég að ríkisstjórnin hefur lagt fram 20 milljónir á þessu ári til að lagfæra húsið eða a.m.k. að vinna að undirbyggingu frekari framkvæmda og er það vel.

Ég minnist þess að fyrir einum þremur áratugum, þegar ég sat í þessum ágæta skóla, var við nokkurn vanda að etja þegar suðaustan rok og rigning stóð upp á skólann og nokkuð bar á að gluggar héldu hvorki vindi né vatni. Að vísu veit ég að ekki er langt síðan það vandamál var leyst og lagfært að hluta til. En með tillit til þess að nú hefur ríkisstjórnin ákveðið að leggja upp í lagfæringu vegna utanhússviðgerða á Sjómannaskólahúsinu í Reykjavík hef ég lagt fram fyrirspurn til hæstv. menntmrh. í þremur liðum:

,,1. Hver er áætlaður kostnaður við utanhússviðgerðir á Sjómannaskólahúsinu í Reykjavík?

2. Hvaða ákvarðanir hafa verið teknar um framkvæmdir?

3. Hverjar er áætlanir um verklok utanhússviðgerða?``