Málefni aldraðra

Miðvikudaginn 17. febrúar 1999, kl. 19:33:53 (3814)

1999-02-17 19:33:53# 123. lþ. 68.20 fundur 306. mál: #A málefni aldraðra# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 123. lþ.

[19:33]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Allt er þá þrennt er. Hv. þm. spyr í fyrsta lagi hvað líði endurskoðun laga um málefni aldraðra. Það mál liggur fyrir þinginu og verður mælt fyrir því á föstudaginn kemur. Þá fáum við tækifæri til að ræða þá endurskoðun.

Í öðru lagi spyr hv. þm. hvort það sé framtíðarsýn ráðherra að nota Framkvæmdasjóð aldraðra til annarra verkefna en honum var upphaflega ætlað. Nú er það svo að Framkvæmdasjóður aldraðra er að sjálfsögðu eingöngu notaður til öldrunarmála. Hann er eingöngu notaður til uppbyggingar í öldrunarmálum, hann er notaður til rekstrar og hann er notaður t.d. til hvíldarinnlagna, svo eitthvað sé nefnt. Hann er sem sé notaður í þágu aldraðra á öllum sviðum og það verður áfram gert.

Hv. þm. ræddi það sérstaklega að ekki hafi verið upphaflega ætlað að svo stór hluti fari til rekstrar eins og er í dag. Hann nefndi réttilega að 55% sjóðsins fari til rekstrar og það er rétt. En það hefur orðið mjög mikil uppbygging á síðustu árum og það kallar auðvitað til sín mjög mikið rekstrarfé. Framkvæmdasjóður er með hálfan milljarð í heildarveltu, og við eygjum það í fyrsta skipti núna að fullnægja þeirri eftirspurn á næstum tveim til þrem árum hvað varðar hjúkrunar- og dvalarrými á Reykjavíkursvæðinu en því er nokkurn veginn fullnægt úti á landi. Við erum því nú að sjá fram á bjartari framtíð varðandi uppbyggingu í öldrunarmálum en við höfum áður séð.

Hv. þm. minntist einnig á að stjórn kæmi að orðnum hlut, eins og hann orðaði það. Það er alveg rétt, því þegar verið er að binda fé í uppbyggingu þá er það til nokkurra ára. Hér er um að ræða framkvæmdir sem kosta kannski á annað hundrað milljónir og það er ekki greitt í einu lagi heldur á þrem til fjórum árum. Það segir sig sjálft, alveg eins og ríkisstjórnir koma oft að málefnum sem eru orðin að ,,orðnum hlut`` en eftir að greiða reikningana.