Forgangsröðun í heilbrigðiskerfinu

Miðvikudaginn 17. febrúar 1999, kl. 19:52:44 (3825)

1999-02-17 19:52:44# 123. lþ. 68.22 fundur 452. mál: #A forgangsröðun í heilbrigðiskerfinu# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi KÁ
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 123. lþ.

[19:52]

Fyrirspyrjandi (Kristín Ástgeirsdóttir):

Hæstv. forseti. Í ársbyrjun árið 1996 skipaði hæstv. heilbrrh. nefnd sem skyldi leggja fram tillögur um forgangsröðun í íslensku heilbrigðiskerfi. Sú sem hér stendur átti sæti í þeirri nefnd og ég get lýst því hér að þar fór fram ákaflega skemmtilegt, fróðlegt og gott starf sem getur að líta í þessari skýrslu, Forgangsröðun í heilbrigðismálum.

Ég held að starf nefndarinnar hafi verið til mikillar fyrirmyndar. Leitað var til ótal aðila og mjög mörgum gefinn kostur á að senda inn umsagnir og tillögur jafnframt því sem kallað var á mjög marga aðila til skrafs og ráðagerða, frá öllum, nánast öllum stéttum heilbrigðiskerfisins, hinum misjöfnu hópum, hvort sem það voru sjúkrahús eða heilsugæsla eða þeir sem fást við tækni og vísindi o.s.frv., þannig að nefndin fékk glögga mynd af hugmyndum fólks um forgangsröðun í heilbrigðismálum jafnframt því að kynna sér það sem gert hefur verið í öðrum löndum hvað það varðar.

Í formálsorðum hæstv. heilbrrh. kemur fram að lagt hefur verið til að nefndin verði kölluð saman árlega til þess að leggja mat á stöðu mála í samfélagi okkar, þ.e. hvort þeim tillögum sem hér koma fram hafi verið fylgt eftir eða hvernig staðan er. Þannig hefur verið staðið að málum í hinum ýmsu löndum að stundum hafa verið skipaðar nýjar nefndir með nokkurra ára millibili vegna þess að þetta er eitt af því sem alltaf þarf að vera til skoðunar.

Í þeirri skýrslu sem lögð var fram er um að ræða frumvinnu hvað þetta varðar. Því má segja að verið sé að nálgast málið frá siðferðilegu sjónarmiði, frá sjónarmiði heilbrigðis, frá sjónarmiði mannréttinda o.s.frv. en jafnframt eru lagðar til nokkrar mjög grundvallandi tillögur hvað varðar forgangsröð.

En spurning mín til hæstv. heilbrrh. er hvernig hún hyggst fylgja eftir niðurstöðum og tillögum nefndarinnar um forgangsröðun í heilbrigðiskerfinu, burt séð frá því að nefndin komi saman og fylgist með málunum. Ég má kannski bæta því við að spyrja hæstv. heilbrrh. hver taki við því verkefni að kalla nefndina saman. Ég gef mér að það sé nýr landlæknir en kannski kann hæstv. heilbrrh. að hafa aðrar hugmyndir um það.