Forgangsröðun í heilbrigðiskerfinu

Miðvikudaginn 17. febrúar 1999, kl. 19:56:02 (3826)

1999-02-17 19:56:02# 123. lþ. 68.22 fundur 452. mál: #A forgangsröðun í heilbrigðiskerfinu# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 123. lþ.

[19:56]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Eins og hv. fyrirspyrjandi, Kristín Ástgeirsdóttir, sagði áðan var mjög merk vinna unnin í forgangsröðunarnefnd. Niðurstöðurnar eru líka merkilegar að því leyti að þar náðist þverfagleg, þverpólitísk niðurstaða. Eins og hv. þm. gat um eru þetta mjög víðtækar tillögur. En rauði þráðurinn í þeim er sá að þeir sem þurfa mest á læknishjálp að halda ganga að sjálfsögðu fyrir og heilsugæslan. Það er rauði þráðurinn í öllum þessum tillögum.

Ég tel að þessar tillögur, sem ég hef nú þegar samþykkt og sendi til stjórnenda heilbrigðisstofnana í ágúst 1998 með þeirri orðsendingu að þessi forgangsröðun skyldi vera kynnt á heilbrigðisstofnunum og unnið eftir þeim, séu merkur áfangi. En auðvitað þarf að halda áfram. Það er ekkert endanlegt í þessum efnum. Þetta þarf að vera sífellt til endurskoðunar. Þess vegna hef ég lagt það til, þó svo að það hafi ekki átt að verða fyrr en í byrjun árs árið 2000 sem nefndin kæmi aftur saman og færi yfir hvernig til hefði tekist, að nefndin komi saman strax næsta haust. Hver kallar nefndina saman til að fara yfir hvernig til hefur tekist? Það er landlæknir hverju sinni.

Ég tel að þessi forgangsröðunarvinna sé þegar farin að nýtast okkur og eigi eftir að nýtast okkur enn betur. En ég endurtek að það er ekkert endanlegt í þessum efnum.