Forgangsröðun í heilbrigðiskerfinu

Miðvikudaginn 17. febrúar 1999, kl. 19:58:11 (3827)

1999-02-17 19:58:11# 123. lþ. 68.22 fundur 452. mál: #A forgangsröðun í heilbrigðiskerfinu# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi KÁ
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 123. lþ.

[19:58]

Fyrirspyrjandi (Kristín Ástgeirsdóttir):

Hæstv. forseti. Ég tek undir þau orð hæstv. heilbrrh. að það er ekkert endanlegt í þessu. Tímarnir breytast, nýir sjúkdómar koma upp, það koma upp nýjar áherslur og samfélagið þarf alltaf að vera vakandi yfir því hvar þörfin er brýnust og hvort menn hanga kannski í einhverjum gömlum hugmyndum. Þær tillögur sem koma fram í skýrslunni eru af ýmsum toga og ég held að þær geti verið öllum þeim sem koma að heilbrigðismálum og vinnu við heilbrigðismál til mikillar umhugsunar, geti orðið til þess í fyrsta lagi að menn velti því fyrir sér hver forgangsröðunin er hjá okkur. Hver eru hin siðferðilegu viðmið? Eru réttindi sjúklinga virt? Hvernig er framkoma starfsfólks o.s.frv., siðareglur heilbrigðisstétta og margt það sem hér er nefnt?

Að hluta til snúa þessar tillögur því hreinlega að starfsanda og vinnubrögðum, en hins vegar eru líka tillögur sem fela í sér mikinn kostnað og þar vil ég nefna sérstaklega rannsóknarþáttinn. Nefndin lagði mikla áherslu á að efla þurfi aðstöðu heilbrigðiskerfisins til rannsókna og það yrði að sjá til þess að tækjakostur væri með þeim hætti að hægt sé að sinna heilbrigðisþjónustu sem allra mest og þannig sé hægt að hagnýta sér tækninýjungar. Þetta er auðvitað eitt svið þar sem við þurfum að taka okkur á og einnig stofnanir og fjárveitingavaldið þarf að beina auknu fjármagni í þann þátt, þ.e. til tækjakaupa og rannsókna.

Ég mun að sjálfsögðu fylgjast áfram með þessu og verð væntanlega kölluð á fund þegar þar að kemur og vil enn og aftur hvetja heilbrrh. til að fylgja þessu máli eftir með umræðum og frekari kynningu.