Eftirlit með útlendingum

Fimmtudaginn 18. febrúar 1999, kl. 10:31:24 (3829)

1999-02-18 10:31:24# 123. lþ. 69.1 fundur 512. mál: #A eftirlit með útlendingum# (forstjóri Útlendingaeftirlits o.fl.) frv., dómsmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 123. lþ.

[10:31]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breyting á lögum um eftirlit með útlendingum en með frv. þessu er stefnt að því að styrkja starfsemi Útlendingaeftirlitsins.

Allt frá árinu 1937 hefur Útlendingaeftirlitið verið rekið sem sérstök stofnun. Sú stofnun hefur þó ávallt starfað í nánum tengslum við lögreglu en lögreglustjórinn í Reykjavík veitti stofnuninni forstöðu þar til embætti ríkislögreglustjóra var stofnað 1. júlí 1997. Frá þeim tíma hefur ríkislögreglustjóri veitt stofnuninni forstöðu og er hún til húsa hjá embætti hans.

Með frv. er lagt til að Útlendingaeftirlitið fái sérstakan forstjóra þannig að rekstur og starfsemi stofnunarinnar verði skilin frá starfsemi ríkislögreglustjóra. Að baki þessu búa þær röksemdir að málefni sem Útlendingaeftirlitið sinnir eru í eðli sínu ekki lögreglustörf og því óeðlilegt að ríkislögreglustjóri sé yfirmaður stofnunarinnar. Einnig hafa útlendingar sem þurfa að reka erindi fyrir stofnuninni enga ástæðu til að ætla að venjuleg málefni sem falla undir Útlendingaeftirlitið séu lögreglumál. Þá er nauðsynlegt að styrkja Útlendingaeftirlitið þar sem verkefni stofnunarinnar hafa aukist verulega á undanförnum missirum og fyrirséð er að sú þróun muni halda áfram, m.a. vegna þátttöku landsins í alþjóðlegu samstarfi á þessu sviði.

Með frv. er einnig lagt til að Útlendingaeftirlitinu verði, í stað ríkislögreglustjóra, falið að annast útgáfu vegabréfa. Þykir sú starfsemi falla betur að verkefnum Útlendingaeftirlitsins en þeirri starfsemi sem ríkislögreglustjóri hefur með höndum.

Herra forseti. Ég hef gert grein fyrir meginefni þessa frv. og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og meðferðar hjá hv. allshn.