Kosningar til Alþingis

Fimmtudaginn 18. febrúar 1999, kl. 10:33:28 (3830)

1999-02-18 10:33:28# 123. lþ. 69.2 fundur 523. mál: #A kosningar til Alþingis# (heildarlög) frv., dómsmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 123. lþ.

[10:33]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Ég fylgi úr hlaði frv. til laga um kosningar til Alþingis en það er ásamt athugasemdum samið af nefnd sem ég skipaði 16. júní 1998 til að vinna að heildarendurskoðun laga um kosningar til Alþingis.

Í nefndina voru skipaðir, tilnefnd af þingflokkum, Guðmundur Árni Stefánsson alþingismaður, Kjartan Gunnarsson framkvæmdastjóri, Kristinn H. Gunnarsson alþingismaður, Siv Friðleifsdóttir alþingismaður og Þórunn Sveinbjarnardóttir varaþingmaður. Þá var Gunnar Eydal, skrifstofustjóri Reykjavíkurborgar, skipaður í nefndina, tilnefndur af Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Kristján Andri Stefánsson, deildarstjóri í forsætisráðuneytinu, ritari nefndar um endurskoðun á reglum um kjördæmaskipun og úthlutun þingsæta. Formaður nefndarinnar var skipaður Ólafur W. Stefánsson, skrifstofustjóri í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, og ritari Jónas Þór Guðmundsson, lögfræðingur í sama ráðuneyti. Með nefndinni starfaði einnig Skúli Guðmundsson, skrifstofustjóri þjóðskrár hjá Hagstofu Íslands. Undir lok nefndarstarfsins tók Bryndís Hlöðversdóttir alþingismaður sæti Kristins H. Gunnarssonar í nefndinni. Nefndinni var ætlað að vinna í samráði við nefnd um endurskoðun stjórnarskrárinnar um kjördæmaskipun og úthlutun þingsæta.

Í almennum og sérstökum athugasemdum sem fylgja frv. kemur fram í hverju tillögur nefndarinnar eru fólgnar. Nefndinni var falið að vinna að heildarendurskoðun laganna um kosningar til Alþingis og nær endurskoðunin til flestra þátta þeirra. Hún tekur þó hvorki til reglna um skiptingu þingsæta milli kjördæma né úthlutun þingsæta, enda var það verkefni í höndum sérstakrar nefndar sem skipuð var af forsrh.

Við endurskoðun kosningalaganna hefur nefndin m.a. haft hliðsjón af breytingum sem gerðar voru á ýmsum ákvæðum um framkvæmd kosninga með setningu laga um kosningar til sveitarstjórna á síðasta Alþingi. Þá hefur verið höfð hliðsjón af tillögum nefndar um endurskoðun á reglum um kjördæmaskipun og úthlutun þingsæta frá 6. október 1998. Frumvarpið felur í sér nokkra breytingu á efnisskipan kosningalaganna. Bætt er úr ýmsum ágöllum sem komið hafa fram við framkvæmd kosninga á undanförnum árum, m.a. við framkvæmd sveitarstjórnarkosninganna í maímánuði 1998 og leitast hefur verið við að skapa umgjörð sem gert getur framkvæmd kosninga einfaldari og greiðari án þess að draga úr öryggi.

Helstu breytingar sem felast í frumvarpinu, raðað eftir efnisskipan frumvarpsins, eru:

Reglur um öll sveitarfélög eru samræmdar.

Sveitarstjórnir ráði alfarið skiptingu sveitarfélags í kjördeildir og skipan undirkjörstjórna.

Hverfis- eða yfirkjörstjórnir verði í sveitarfélögum þar sem eru fleiri en ein kjördeild á kjörstað og yfirkjörstjórn verði þar sem slíkir kjörstaðir eru fleiri en einn.

Kjörstjórnarmaður verði vanhæfur ef til meðferðar er mál sem varðar þann sem er skyldur honum eða mægður.

Ekki má breyta kjörskrá vegna nýs lögheimilis nema flutningur hafi átt sér stað þremur vikum fyrir kjördag og tilkynning um nýtt lögheimili hafi borist þjóðskrá Hagstofunnar til skráningar fyrir sama tíma.

Kveðið er á um sérstaka tilkynningarskyldu sveitarfélags ef athugasemdir koma fram við kjörskrá.

Ákvæði er um að enginn megi mæla með fleiri framboðslistum en einum við sömu kosningar.

Ákvæði er um hvenær frambjóðandi getur afturkallað samþykki til framboðs.

Ákvæði er um hvenær meðmælandi getur afturkallað stuðningsyfirlýsingu sína.

Aukinn fjöldi kjósenda er áskilinn við umsókn um listabókstaf fyrir ný stjórnmálasamtök.

Ákvæði er um að heiti nýrra stjórnmálasamtaka megi ekki vera þannig að ætla megi að villst verði á því og heiti samtaka sem fyrir eru.

Ákvæði er um gera skuli leiðbeiningar um tilhögun atkvæðagreiðslu utan kjörfundar.

Sýslumanni verði heimilað að ákveða að atkvæðagreiðsla utan kjörfundar fari fram á öðrum stöðum í umdæmi hans en embættisskrifstofu eða útibúi.

Ákvæði er um að ekki þurfi læknisvottorð til stuðnings ósk um að greiða atkvæði í heimahúsi.

Nægilegt verði að umsókn um að greiða atkvæði í heimahúsi hafi borist kjörstjóra fjórum dögum fyrir kjördag.

Ákvæði er um að framkvæmd og afgreiðslutíma utankjörfundaratkvæðagreiðslu skuli haga þannig að kosning geti gengið sem greiðast fyrir sig.

Utanríkisráðuneytið geti ákveðið að utankjörfundaratkvæðagreiðsla fari fram á öðrum stöðum erlendis en í skrifstofu sendiráðs, fastanefndar eða ræðismanns og að tilnefndir verði sérstakir kjörstjórar í þessu skyni.

Atkvæðagreiðsla um borð í skipi sem er í siglingum erlendis eða á fjarlægum miðum geti náð til farþega með skipinu auk áhafnar þess.

Kennivottorð, t.d. vegabréf, ökuskírteini o.fl., verði tilgreind sem skilríki kjósanda við atkvæðagreiðslu, auk nafnskírteinis.

Ákvæði er um að kjörfund skuli almennt setja kl. 9 árdegis en kjörstjórn geti ákveðið að kjörfundur hefjist síðar, þó ekki síðar en kl. 12 á hádegi.

Einfölduð eru ákvæði um tilhögun atkvæðagreiðslu á kjörfundi í þeim tilgangi að gera athöfnina einfaldari og greiðari.

Kveðið er á um hlutverk kjörstjórnar við að halda uppi vörslu og reglu á kjörstað.

Ákvæði er um að á hverjum kjörstað skuli vera tilkynning um framboðslista með heiti stjórnmálasamtaka, listabókstöfum og nöfnum frambjóðenda.

Ný ákvæði eru um meðferð utankjörfundaratkvæða hjá kjörstjórn.

Hér hafa verið nefndar helstu breytingar sem felast í frv. en að öðru leyti verður vísað til almennra prentuðu athugasemda. Í bréfi nefndarinnar sem samdi frv. þetta kemur fram að nefndin leit svo á að nauðsyn bæri til að undirbúa frv. til nýrra laga um kosningar til Alþingis er gildi við kosningar sem fram eiga að fara 8. maí nk. Vegna þess hve seint nefndin var skipuð um miðjan júnímánuð tókst nefndinni hins vegar ekki að ljúka endurskoðun allra ákvæða kosningalaganna. Nefndin telur ástæðu til að skoða frekar ýmis önnur atriði laganna þar sem breytingar eru lagðar til. Er ástæða til að geta hér þeirra atriða sem nefndin tilgreindi í því sambandi:

Má fela öðrum en nú er, t.d. sveitarfélögum, kjörstjórnum þeirra eða póstinum framkvæmd atkvæðagreiðslu utan kjörfundar innan lands? Tilhögun utankjörfundaratkvæðagreiðslu erlendis. Þar er spurt um rýmkun reglna. Rýmkun reglna um heimild til að veita kjósanda aðstoð, hvort heldur er á kjörfundi eða utan kjörfundar. Skipting kostnaðar eða þátttaka ríkis í kostnaði sem sveitarfélögin bera. Á að taka upp talningu atkvæða á fleiri stöðum í hverju kjördæmi en nú er? Fjöldi kjósenda í kjördeild. Fjöldi kjörstjórnarmanna og þá í leiðinni allt fyrirkomulag atkvæðagreiðslu á kjördegi. Á að heimila móttöku umsókna um kosningarrétt frá þeim sem fluttir eru til útlanda eftir 1. desember næstan fyrir kjördag? Reglur um afsal kosningarréttar í kjördeild þar sem maður er á kjörskrá.

Þá ræddi kosningalaganefndin ýmis önnur atriði sem varða framkvæmd kosninga. Má þar nefna aðgang að kjörskrám, skráningu upplýsinga um þá sem greiða atkvæði og aðgang að skrám um það efni, hvort heldur er utan kjörfundar eða á kjörstað; geymsla kjörskráa og gerð kannana úr upplýsingum úr kjörskrá, vernd á heiti stjórnmálasamtaka, hlutverk og ábyrgð einstakra kjörstjórna, leiðbeiningar og fræðsla til þeirra sem starfa að kosningum, hlutverk hins opinbera við kynningu á kosningum, skoðanakannanir í nánd kosninga, kjósendarannsóknir á kjörstað og fleira.

Í bréfi nefndarinnar kom fram að skoðanir á einstökum málum voru skiptar innan nefndarinnar og að í öðrum tilvikum kunni að þykja álitamál hvað gera skuli. Þótt það sé ekki nefnt sérstaklega í þessari upptalningu er mér kunnugt um að innan nefndarinnar voru einnig til umræðu atriði sem varða t.d. gerð kjörseðla. Í sumum nágrannalanda eru kjörseðlar útbúnir sérstaklega fyrir hvern framboðslista eða stjórnmálasamtök. Í þessu sambandi er einnig ljóst að huga þarf að því með hvaða hætti taka megi nýja tækni eins og tölvubúnað í notkun við framkvæmd kosninga í framtíðinni.

Í bréfinu sem kosningalaganefndin sendi með tillögum sínum komu og fram athugasemdir fulltrúa stjórnmálasamtakanna í nefndinni við framkvæmd utankjörfundaratkvæðagreiðslunnar innan lands, einkum á helstu þéttbýlisstöðum. Beinist óánægja og gagnrýni þeirra fyrst og fremst að auglýsingum og afgreiðslutíma, aðbúnaði á kjörstað og of litlu starfsliði. Kosningin tekur því langan tíma og á álagstímum verða langar biðraðir kjósenda. Treystir nefndin því að dómsmrn. sjái til þess að við utankjörfundaratkvæðagreiðslu vegna kosninga nú í vor verði tekið fullt tillit til ábendinga um galla á framkvæmd atkvæðagreiðslunnar og bætt úr. Þessar athugasemdir verða að sjálfsögðu teknar til sérstakrar jákvæðrar skoðunar í dómsmrn.

Í þessu sambandi er rétt að geta þess að í frv. er nú sérstaklega tekið fram að framkvæmd og afgreiðslutíma við utankjörfundaratkvæðagreiðslu skuli haga þannig að kosning geti gengið sem greiðast fyrir sig.

Eins og áður greinir tókst kosningalaganefndinni ekki að ljúka fullri endurskoðun laganna um kosningar til Alþingis. Nefndin var hins vegar sammála um að brýnt væri að í þessari lotu yrðu gerðar þær lagfæringar og breytingar sem finna má í frv. því sem hér liggur fyrir, það muni leiða til bættrar þjónustu og einfaldari og skýrari framkvæmdar á kosningunum.

Fyrir Alþingi liggur frv. til stjórnarskipunarlaga um breytingar á stjórnarskránni að því er varðar kjördæmaskipun og úthlutun þingsæta. Samþykkt þess frv. felur í sér að breyta þarf tilteknum atriðum í lögum um kosningar til Alþingis. Þær breytingar er væntanlega eðlilegast að afgreiða samhliða stjórnarskrárbreytingunni. Þarf þá að taka afstöðu til þess hvernig haga eigi frekari endurskoðun kosningalaga á grundvelli hugmynda kosningalaganefndarinnar. Æskilegt er að sú endurskoðun hefjist sem fyrst þannig að gott ráðrúm gefist til að undirbúa þær breytingar í tæka tíð áður en aftur kemur til kosninga. Ber þá að hafa í huga að framkvæmd kjörs forseta Íslands fer samkvæmt lögum um kosningar til Alþingis eftir því sem við á.

Herra forseti. Frv. þetta felur í sér margvíslegar breytingar á framkvæmd kosninga til einföldunar og hagræðis án þess að breytingarnar séu flóknar eða kostnaðarsamar. Frv. er við það miðað að ný kosningalög geti tekið gildi fyrir alþingiskosningar sem fram eiga að fara í maímánuði. Lögin þurfa því helst að liggja fyrir eigi síðar en átta vikum fyrir kjördag, þ.e. 13. mars. Frv. er undirbúið af nefnd með fulltrúum þingflokkanna og þess því að vænta að frv. hljóti viðeigandi þingmeðferð í tæka tíð þannig að alþingiskosningar geti farið fram samkvæmt nýjum reglum frv.

Herra forseti. Ég legg til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og meðferðar hjá hv. allshn.